Þar sem rekstur Framsýnar gekk mjög vel á síðasta ári var ákveðið á aðalfundi félagsins að hækka bætur og styrki til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins. Á síðasta ári fengu félagsmenn greiddar tæpar 100 milljónir í sjúkradagpeninga og aðra styrki er tengjast heilsueflingu eða veikindum þeirra. Styrkupphæðir til félagsmanna Framsýnar úr sjúkrasjóði og reyndar fræðslusjóði líka eru með þeim bestu sem þekkjast hjá sambærilegum stéttarfélögum á Íslandi.
Breytingarnar sem taka gildi 1. maí 2024 eru eftirfarandi:
- Útfararstyrkur til aðstandenda eldri félagsmanna hækki úr kr. 150.000,- í kr. 160.000,-.
- Styrkur til félagsmanna vegna dvalar á heilsuhælum/Hveragerði hækki úr kr. 110.000,- í kr. 120.000,-.
- Fæðingarstyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
- Ættleiðingastyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
- Þurfi félagsmenn að gangast undir tæknifrjóvgun hækki styrkurinn úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
- Krabbabeinsskoðun taki smávægilegum breytingum. Áfram greitt fyrir hefðbundna skoðun að fullu. Heildarstyrkurinn verði kr. 40.000,- á ári til félagsmanna.
- Styrkur vegna heilsueflingar félagsmanna hækki úr kr. 40.000,- í kr. 45.000,-.
- Þátttaka í ferðakostnaði félagsmanna vegna veikinda, það er þurfi þeir að ferðast til Akureyrar eða Reykjavíkur til lækna eða sérfræðinga, verði aukin um eina ferð. Fari úr þremur ferðum í fjórar.
- Þátttaka í göngugreiningu félagsmanna verði aukin úr kr. 6.000,- í kr. 10.000,-.
- Þátttaka vegna Laser eða augnsteinaaðgerða hækki úr kr. 60.000,- í kr. 80.000,- per auga.
- Gleraugnastyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 70.000,- í kr. 90.000,-.
- Heyrnatækjastyrkir til félagsmanna hækki úr kr. 100.000,- í kr. 125.000,- per eyra.
Reglur varðandi úthlutun styrkja úr sjúkrasjóði halda sér áfram sem taka m.a. mið af greiddu félagsgjaldi síðustu mánuði fyrir umsókn.