Á næstu dögum munum við fjalla um helstu málefni og samþykktir aðalfundar Framsýnar sem var haldinn 3. maí. Því miður hefur ekki gefist tími til að fjalla um aðalfundinn fyrr en núna vegna mikilla anna á Skrifstofu stéttarfélaganna. Aðalfundurinn samþykkti með lófaklappi að færa HSN/Hvammi að gjöf til kaupa á tækjum fyrir stofnanirnar. Mestu munar um hjartatæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnunninni á Húsavík. Nánar verður fjallað um málið síðar en til stendur að afhenda gjöfina síðar í júní. Eftirfarandi samþykkt var gerð á fundinum:
“Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags samþykkir að færa Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf kr. 15.000.000,- til kaupa á tækjum og búnaði til að efla starfsemina enn frekar.
HSN og Hvammur hafa á að skipa frábæru fagfólki í öllum stöðum. Svo starfsemin megi þrífast áfram um ókomna tíð er mikilvægt að heilbrigðis starfsfólk hafi aðgengi að fullkomnustu tækjum á hverjum tíma til lækninga og þjálfunar.
Með gjöfinni vill Framsýn stéttarfélag undirstrika mikilvægi þess, að íbúar í Þingeyjarsýslum og aðrir þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu að halda á hverjum tíma, hafi aðgengi að öflugum heilbrigðisstofnunum.
Þannig byggjum við upp sterkt samfélag öllum til hagsbóta.”