Aðalfundur STH – Í fréttum er þetta helst

Aðalfundur STH var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna 24. maí. Mæting á fundinn hefði mátt vera betri. Hermína Hreiðarsdóttir formaður opnaði fundinn og bauð fundarmenn velkomna til fundarins.

Niðurstöður fundarins:

a) Kjör á starfsmönnum fundarins
Aðalsteinn Árni var kjörinn fundarstjóri og fundarritari.

b) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
Formaður, Hermína Hreiðarsdóttir, flutti skýrslu stjórnar.

Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 24. maí 2023. Frá þeim tíma hafa verið haldnir eftirfarandi fundir á vegum félagsins:

Fundir í stjórn                                         4

Félagsfundir                                           1

Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna     5

Fundir í 1. maínefnd stéttarfélaganna    2

Fundir í orlofsnefnd stéttarfélaganna    1

Fundir skoðunarmanna reikninga          1

Samtals fundir 14

Auk þess hafa stjórnarmenn tekið þátt í fundum, ráðstefnum og þingum á vegum BSRB. Landsfundur bæjarstarfsmannafélaga var haldinn í Keflavík dagana 22. til 23. nóvember 2023. Hermína, Fanney og Berglind tóku þátt í fundinum fh. félagsins. Þær voru sammála um að fundurinn hafi bæði verið málefnalegur og fræðandi. Umræður hafi orðið á landsfundinum m.a. um verkfallið síðastliðið haust, kröfugerð aðildarfélaganna, starfsmatið og vinnutímastyttinguna. Formaður félagsins tók þátt í pallborðsumæðum á landsfundinum.

Fullgildir félagsmenn:
Fullgildir félagsmenn í Stafsmannafélagi Húsavíkur þann 31. desember 2023 voru 100, það er þeir sem greiddu til félagsins 2023 Það er 36 karlar og 66 konur. Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2024 skv. félagatali í DK voru 72 en voru 76 á sama tíma í fyrra. Félagsmönnum hefur fækkað aðeins milli ára. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB.

Fjármál:
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2023 námu kr. 12.298.254,-  en voru kr. 13.134.738,- árið á undan.

Rekstrargjöld voru kr. 16.624.114,- og hækkuðu því milli ára úr kr. 11.214.580,-. Fjármunatekjur voru kr. 2.820.096,- samanborið við kr. 1.046.576,- árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 1.526.591,- samanborið við kr. 5.705.534,- tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 81.625.593,- og eigið fé nam kr. 80.545.725,-. Hefur það aukist um 1,9% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.543.772,-.

Orlofsmál:
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Auk íbúðarinnar í Sólheimum á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum. Að venju fengu nokkrir félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum.

Til viðbótar má geta þess að félagið fór í umtalsverðar breytingar á bústaðnum á Eiðum. Verið er að taka orlofshúsið í gegn. Skipt verður um ofna þar sem tengja á hitaveitu inn í húsið, nýjum gluggatjöldum verður komið fyrir að hluta, komið verður fyrir heitum potti og nýjum rafmagnsmæli. Kostnaður félagsins hleypur á nokkrum milljónum. Orlofssjóður félagsins mun fjármagna verkefnið. Reiknað er með að hægt verði að lengja leigutímann þar sem leggja á hitaveitu í orlofshúsið sem og önnur orlofshús á Eiðum. Reiknað er með að orlofshúsið fari aftur í leigu til félagsmanna 1. júlí í sumar. Því miður lagðist áætlunarflug af til Húsavíkur þann 1. maí 2024. Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur árið 2012. Síðan þá hafa stéttarfélögin verið í góðu samstarfi við flugfélagið um áætlunarflugið sem hefur byggst á því að stéttarfélögin hafa gert magnkaup á flugmiðum sem síðan hafa verið áfram seldir til félagsmanna á kostnaðarverði. Ljóst er að það er mikið áfall fyrir Þingeyinga og alla þá sem treyst hafa á flugið að flugsamgöngurnar skuli hafa lagst af. Ekki er að sjá að áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur hefjist í bráð.

60 ára afmæli félagsins:
Félagið stóð fyrir afmælisferð til Siglufjarðar 25. nóvember í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Félagið var stofnað 26. október 1963. Ferðin til Siglufjarðar var í alla staði frábær. Boðið var upp á jólahlaðborð og gistingu. Þá var boðið upp á siglingu með Örkinni sem var gerð upp á Húsavík fyrir nokkrum árum.

Fræðslumál og heilsurækt:
Á síðasta ári voru greiddir samtals kr. 710.200,- í námsstyrki til félagsmanna. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 88.496,- í heilsustyrki frá félaginu.

Kjaramál:
Kjaraviðræður við ríkið og sveitarfélög hafa gengið allt of hægt. Sameiginleg samninganefnd bæjarstarfsmannafélaga í BSRB hefur vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara vegna viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga. Viðræðurnar hafa staðið yfir í nokkra mánuði vegna endurnýjunar kjarasamninga sem taka til um 7000 félagsfólks í félögunum sem starfa um land allt. Samninganefndin telur fullreynt að ná samkomulagi milli aðila án milligöngu ríkissáttasemjara. Samhliða hefur BSRB farið fyrir sameiginlegum málum félaganna líkt og útfærslu á vinnutíma, þ.e. vaktavinnu og dagvinnu sem sést nú fyrir endann á en enn er langt á milli aðila þegar kemur að jöfnun launa milli markaða. Starfsmannafélag Húsavíkur á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Félagið greiddi BSRB kr. 3.168.789,- vegna verkfalls bæjarstarfsmanna. Sambandið tók að sér að halda utan um málið, það er að greiða út verkfallsbætur og greiða kostnað vegna auglýsingaherferðar í kjölfar ákvörðunar aðildarfélaga sambandsins að fara í verkfallsaðgerðir. Við því er ekkert að gera enda félagið þáttakandi í verkfallsaðgerðum BSRB. Innan félagsins hafa verið umræður um starfsmatið og endurskoðunina á því sem stendur yfir um þessar mundir. Mikil óánægja er með ákvörðun Sambands ísl. sveitarfélaga með að ákveða einhliða að nýtt starfsmat tæki gildi 1. janúar 2024. Aðildarfélög BSRB og ASÍ hafa sameiginlega mótmælt vinnubrögðum SÍS. Þá telja BSRB og ASÍ að búið hafi verið að semja um að nýtt starfsmat tæki gildi haustið 2021. Til skoðunar er að fara með málið fyrir dómsstóla. Formaður félagsins hefur verið í góðu sambandi við þá sem fara fyrir viðræðunum við Samband ísl. sveitarfélaga fh. starfsmannafélaganna innan BSRB og upplýst stjórnarmenn STH um stöðuna á hverjum tíma. Þá er rétt að taka fram til viðbótar að ósamið er við ríkið.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit:
Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum. Ekki er að sjá að sveitarfélögin á svæðinu muni draga úr starfsemi á komandi árum. Því ætti atvinnuástandið að haldast áfram gott.

Hátíðarhöldin 1. maí:
Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2024. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, sem jafnframt var heiðraður á samkomunni, auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík voru vel sótt og öllum til mikils sóma.

Starfsemi félagsins:
STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra: Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Miðvikudaginn 14. júní stóð félagið fyrir kynningarfundi í fundarsal stéttarfélaganna um nýgerðan kjarasamning aðildarfélaga BSRB og Sambands ísl. sveitarfélaga. Um var að ræða skammtímasamning. Formaður gerði fundarmönnum grein fyrir helstu atriðum kjarasamningsins og fyrirkomulagi varðandi atkvæðagreiðslu um samninginn.  Kjarasamningurinn var samþykktur í öllum aðildarfélögum BSRB sem voru aðilar að samningnum. Alls samþykktu 93,33% félagsmanna STH samninginn. Stjórnin samþykkti að senda sveitarstjóra Norðurþings bréf varðandi aðild starfsmanna sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana að STH.

Heimsókn til forseta Íslands:
Formaður STH þáði heimboð forseta Íslands, Guðna T. Jóhannessonar til Bessastaða, í tilefni fullveldisdagsins 1. desember. Til móttökunnar voru boðnir formenn launþegasamtaka ASÍ og BSRB. Formenn stéttarfélaganna, Framsýnar, Þingiðnar og STH þáðu öll boð forseta, sem hélt þar tölu og bauð gestum að skoða húsakynni á Bessastöðum.

Heimsókn ríkissáttasemjara:                                                                                                                  Ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson og samstarfsfólk hans hjá embættinu, þær Bára Hildur Jóhannsdóttir, Aldís Magnúsdóttir og Elísabet S. Ólafsdóttir funduðu með fulltrúum úr stjórnum Framsýnar, STH og Verkalýðsfélags Þórshafnar á Húsavík í september 2023. Gestirnir fóru yfir hlutverk og starfsemi embættis ríkissáttasemjara sem hefur á að skipa fáu, en að sama skapi öflugu starfsfólki. Auk þess kölluðu þau eftir helstu áherslum félaganna varðandi kjaramálaumhverfið og komandi samningavetur. Fundurinn var upplýsandi og  góður í alla staði. Síðar kom ríkissáttasemjari á framfæri kveðju til forsvarsmanna stéttarfélaganna, þar sem hann þakkaði fyrir góðar móttökur og áhugaverðar umræður á fundinum á Húsavík.

Samstöðufundur 24. október:
Þann 24. október 2023 boðuðu á fjórða tug samtaka til kvennaverkfalls og skipulagðir voru  baráttufundir kvenna og kvára víða um land. Meðal þeirra sem stóðu að skipulagningunni voru ASÍ, BSRB og BHM ásamt fjölda samtaka kvenna og hinsegin fólks. Framsýn, Þingiðn og STH stigu fram með stuttum fyrirvara og stóðu fyrir samstöðufundum á Húsavík og Raufarhöfn. Á Húsavík komu tæplega 300 konur og kvárar saman og hreinlega sprengdu húsnæði stéttarfélaga utan af sér. Á Raufarhöfn var einnig góð mæting í félagsheimilið Hnitbjörg og komu konur bæði frá Raufarhöfn og nærliggjandi byggðarlögum saman til fundar. Óhætt er að segja að báðar samkomurnar hafi heppnast afar vel. Það voru Ósk Helgadóttir, Guðný I. Grímsdóttir, Gunnþórunn Þórgrímsdóttir og  Sunna Torfadóttir frá Framsýn, ásamt Hermínu Hreiðarsdóttur formanni STH, sem sáu um og skipulögðu viðburðinn á Húsavík, með dyggri aðstoð karlkyns starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna, en Svava Árnadóttir var í forsvari fyrir fundinum á Raufarhöfn.  Eftir tvö ár verða 50 ár liðin frá fyrsta Kvennafrídeginum. Full ástæða er til að þakka þeim sem komu að framkvæmd og skipulagningu samstöðufundanna á Húsavík og Raufarhöfn fyrir þeirra framlag til að gera daginn sem glæsilegastan.

Húsnæði stéttarfélaganna:
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.

Tímamót hjá forstöðumanni:
Þann 3. maí 2024 voru tímabót hjá forstöðumanni Skrifstofu stéttarfélaganna, Aðalsteini Árna Baldurssyni, en þá voru liðinn 30 ár frá því að hann tók við forstöðu Skrifstofu stéttarfélaganna. Hann hefur því verið framkvæmdastjóri STH í þrjá áratugi. Fyrir það ber að þakka.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs:
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Markmið Virk er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Með samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009, það er í húsnæði stéttarfélaganna á Húsavík. Þann 1. maí 2024 urðu ákveðnar breytingar hvað samstarfið varðar. Framsýn og Virk gerðu með sér samkomulag um að Virk yfirtæki starfsmann sjóðsins á Húsavík en Virk hafði áður kostað starfsmanninn, það er með framlagi til Framsýnar. Frá og með 1. maí færðist hann alfarið yfir til Virk og heyrir því ekki lengur undir forstöðumann Skrifstofu stéttarfélaganna. Gott samstarf er við stofnanir og meðferðaraðila á svæðinu, á sviði heilbrigðis-, félags- og menntunarmála. Virk hefur staðið fyrir kynningu og vitundavakningu um efni sem tengjast farsælli þátttöku og endurkomu á vinnumarkaði. Í þessu sambandi má t.d. nefna kynningarátök og rannsóknir Virk á kynbundnu ofbeldi á vinnumarkaði, kulnun og breytingaskeiði kvenna. Á vettvangi Virk hlutu 10 fyrirtæki/stofnanir nýlega sérstaka viðurkenningu fyrir framlagt sitt til stuðnings einstaklinga sem stíga út á vinnumarkað eftir fjarveru vegna veikinda.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og Þingiðn. Þar starfa 7 starfsmenn með starfsmanni Virk í 5,8 stöðugildum. Þess ber að geta að Kristján Ingi Jónsson hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hans stað var Aðalsteinn J. Halldórsson ráðinn til starfa frá og með 1. nóvember 2023, en hann starfaði áður á Skrifstofu stéttarfélaganna frá árinu 2016 til ársins 2020 og hefur frá þeim tíma hefur hann verið í afleysingum hjá félögunum. Full ástæða er til að þakka Kristjáni fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Kristján var góður liðsmaður. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar.

Fulltrúaráð stéttarfélaganna:
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna mynda með sér Fulltrúaráð sem skipað er formönnum þessara félaga. Fulltrúaráðinu er ætlað að fylgjast með sameiginlegri starfsemi félaganna, ekki síst sem viðkemur rekstri skrifstofunnar. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar eftir þörfum.

Lokaorð:
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

c) Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
Elísabet Gunnarsdóttir fjármálastjóri stéttarfélaganna fór yfir ársreikninga félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2023 námu kr. 12.298.254,-  en voru kr. 13.134.738,- árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 16.624.114,- og hækkuðu því milli ára úr kr. 11.214.580,-. Fjármunatekjur voru kr. 2.820.096,- samanborið við kr. 1.046.576,- árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 1.526.591,- samanborið við kr. 5.705.534,- tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 81.625.593,- og eigið fé nam kr. 80.545.725,-. Hefur það aukist um 1,9% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.543.772,-.

Umræður um b og c-lið á dagskrá fundarins voru teknar saman. Eftir umræður voru reikningarnir bornir upp og samþykktir. Tillaga um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt samhljóða.

d) Ákvörðun félagsgjalds
Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum var samþykkt samhljóða.

e) Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjái um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2024 var samþykkt samhljóða.

f) Lagabreytingar, ef þær liggja fyrir
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.

g) Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna samkvæmt 8. Grein
Ganga þarf frá kjöri á gjaldkera og einum meðstjórnanda til tveggja ára samkvæmt lögum félagsins.

Fanney Hreinsdóttir gefur kost á sér áfram sem gjaldkeri félagsins og gerð er tillaga um að Sylvía Ægisdóttir verði áfram meðstjórnandi en hún var ekki á fundinum. Fundurinn samþykkti kjör þeirra.

Tillaga er um að Ása Gísladóttir og Erla Bjarnadóttir verði félagslega kjörnir skoðunarmenn reikninga fyrir starfsárið 2024. Til vara verði Vilborg Sverrisdóttir. Tillagan var samþykkt samhljóða.

h) Kosning fulltrúa í orlofsnefnd, ferðanefnd og starfskjaranefnd
Tillaga um að Sveinn Hreinsson, Arna Þórarinsdóttir og Guðrún Ósk Brynjarsdóttir verði í orlofs- og starfskjaranefnd félagsins var samþykkt samhljóða.

Tillaga um að Einar Víðir Einarsson, Arna Þórarinsdóttir og Eyrún Sveinsdóttir verði í Ferðanefnd félagsins var samþykkt samhljóða.

Tillaga um að Bergljót Friðbjarnardóttir og Hermína Hreiðarsdóttir verði í stjórn Starfsmenntasjóðs STH fh. félagsins var samþykkt samhljóða. Norðurþing tilnefnir sína fulltrúa í stjórn sjóðsins.

i) Kosning fulltrúa á þing BSRB
Reglulegt þing BSRB verður haldið síðar á árinu. STH á rétt á tveimur fulltrúum. Þrír gefa kost á sér til að fara og því þarf að kjósa um fulltrúa félagsins. Hermína Hreiðarsdóttir, Fanney Hreinsdóttir og Bergljót Friðbjarnardóttir gefa allar kost á sér. Fram fór leynileg atkvæðagreiðsla. Atkvæði féllu þannig: Hermína 7 atkvæði, Bergljót 5 atkvæði og Fanney 2 atkvæði. Hermína og Bergljót eru því réttkjörnir fulltrúar félagsins á komandi þing.

 j) Ákvörðun um laun stjórnar, annarra stjórna, ráða og nefnda
Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga:

Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda. Þá hafi formaður á hverjum tíma fasta greiðslu kr. 30.000,- á mánuði fyrir störf sín sem formaður félagsins samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Tillagan var samþykkt samhljóða.

k) Önnur mál
Undir þessum lið urðu umræður um orlofshús félagsins á Eiðum og breytingarnar sem unnið er að um þessar mundir til að bæta orlofshúsið. Töldu fundarmenn það mjög jákvætt. Án efa yrði betri nýting á húsinu eftir breytingarnar en fyrirhugað er að það fari í útleigu til félagsmanna 1. júlí nk.

Umræður urðu um mikilvægi þess að efla starfsemi félagsins, s.s. með því að velja fleiri félagsmenn í trúnaðarstöður fyrir félagið. Í dag er það þannig að sama fólkið situr að mestu í stjórnum og nefndum á vegum félagsins. Ákveðið að hafa þetta í huga þegar stillt verður upp fólki í trúnaðarstöður á næsta aðalfundi félagsins 2025.

Ása Gísladóttir spurði út í Starfsmenntasjóð félagsins. Taldi hún stöðu sjóðsins góða og því væri spurning hvort ekki væri ástæða til að styrkja fræðslustofnanir á svæðinu með einhverjum hætti. Aðalsteinn Árni tók fram að markmið sjóðsins væri að styrkja félagsmenn sem eru á vinnumarkaði til náms og endurmenntunar svo þeir geti á hverjum tíma tileinkað sér tæknibreytingar og tekist á við vandasamari störf í framtíðinni. Fundarmenn töldu eðlilegt að stjórnin skoðaði reglugerð sjóðsins og hvað væri heimilt að gera hvað það varðar að styrkja menntastofnanir. Eins og kunnugt er, er stjórn starfsmenntasjóðsins skipuð fulltrúum frá STH og Norðurþingi og því þarf að eiga sér stað samtal milli aðila um málið.

Fanney Hreins ítrekaði mikilvægi þess að kynna félagið betur fyrir starfsmönnum Norðurþings og stofnana sem tengjast starfsemi sveitarfélaga á félagssvæðinu.

Fleira ekki gert – fundi slitið.

Fundarritari/fundarstjóri, Aðalsteinn Árni Baldursson

Deila á