Á aðalfundi Framsýnar 3. maí 2024 var Ágúst S. Óskarsson sæmdur gullmerki félagsins. Samkvæmt lögum félagsins er heimilt að velja heiðursfélaga og/eða sæma menn sérstaklega gullmerki félagsins fyrir störf í þágu félagsins.
Fyrir tveimur árum síðan var byrjað að veita sérstakt gullmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, en nokkrir einstaklingar hafa í gegnum tíðina verið gerðir að sérstökum heiðursfélögum sem er æðsta viðurkenning félagsins. Þeir síðustu voru Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson, Kristbjörg Sigurðardóttir, Ósk Helgadóttir og nú Aðalsteinn Árni Baldursson sem tók við æðsta heiðursmerki félagsins á hátíðarhöldunum 1. maí sl. Þau hafa öll gengt formennsku eða varaformennsku í Verkalýðsfélagi Húsavíkur, síðar Framsýn stéttarfélagi.
Gullmerki Framsýnar er unnið af Kristínu Petru Guðmundsdóttur gullsmið. Það er gert eftir upprunalegu merki félagsins, sem hannað var af grafískum hönnuði, Bjarka Lúðvíkssyni, og tekið upp við sameiningu Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Húsavíkur undir nafninu Framsýn stéttarfélag árið 2008. Áður höfðu Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Verkalýðsfélag Öxarfjarðar sameinast Verkalýðsfélagi Húsavíkur.
Í máli formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna, kom fram að það væri ekkert launungarmál að árangur félagsins og vinsældir væru ekki síst fólkinu að þakka sem myndaði félagið á hverjum tíma. Þátttaka launafólks í stéttarfélögum væri forsendan fyrir því að þau næðu að sinna sínu mikilvæga hlutverki á hverjum tíma, félagsmönnum til hagsbóta. Það gerðist ekki að sjálfu sér.
Það væri hins vegar ekki sjálfgefið að fólk fengist til að sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar, allra síst nú á dögum þegar þátttaka fólks í félagsstörfum almennt virtist fara þverrandi. Það væri einkar ánægjulegt fyrir félagið að geta gefið til baka og sýnt því góða fólki sem starfað hefur lengi af óeigingirni og trúmennsku örlítinn þakklætisvott fyrir hið mikla starf sem þau hafa innt af hendi í þágu félagsmanna.
Á komandi árum munum við án efa veita fleiri slíkar viðurkenningar fólki sem starfað hefur af heilindum fyrir félagið okkar til lengri tíma um leið og Aðalsteinn Árni kallaði Ágúst S. Óskarsson upp til að taka við gullmerki félagsins en hann hefur um áratugaskeið starfað fyrir félagið og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum af mikilli trúmennsku. Ágúst bætist nú í hóp þeirra Jakobs G. Hjaltalín, Jónínu Hermanns og Dómhildar Antons sem áður hafa fengið þessa viðurkenningu frá Framsýn fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
Ágúst Sigurður Óskarsson:
Ágúst hefur að baki langan og farsælan feril sem starfsmaður stéttarfélaganna. Hann hóf störf hjá stéttarfélögunum árið 1988. Hann tók smá hliðarskref árið 2005 þegar hann færði sig um set og réð sig til starfa hjá Félagsþjónustu Norðurþings. Þar starfaði hann sem ráðgjafi og staðgengill félagsmálastjóra til ársins 2010 þegar honum bauðst að taka við starfi ráðgjafa á vegum Virk starfsendurhæfingarsjóðs sem Framsýn hefur hýst allt frá stofnun sjóðsins 2008 þar til 1. maí 2024 þegar Virk og Framsýn gerðu með sér samkomulag um að starfsmaðurinn færðist alfarið yfir til Virk vegna skipulagsbreytinga hjá sjóðnum. Ágúst féll því af launaskrá hjá Framsýn um síðustu mánaðamót. Ágúst hefur alla tíð verið mjög virkur í starfi. Þegar hann réð sig til starfa hjá stéttarfélögunum fyrir rúmlega þremur áratugum síðan, hefur hann gengt ýmsum störfum í gegnum tíðina s.s. séð um að færa bókhald, þjónað atvinnuleitendum og almennum félagsmönnum auk þess að starfa fyrir Lífeyrissjóðinn Björg sem var í fyrstu í samstarfi við stéttarfélögin um skrifstofuhald áður en hann var sameinaður Lífeyrissjóði Norðurlands og starfsemin fluttist til Akureyrar í kjölfarið. Það verður ekki annað sagt um Ágúst en að hann hafi verið traustur og metnaðarfullur starfsmaður þau fjölmörgu ár sem hann hefur starfað á Skrifstofu stéttarfélaganna við almenn störf, síðar Virk starfsendurhæfingarsjóð. Þá má ekki gleyma því að Ágúst var formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur um árabil. Fyrir það viljum við þakka með því að veita honum gullmerki félagsins. Ágúst hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til félagsmanna stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.