Ánægja með samninginn

Framsýn stóð fyrir kynningarfundi í gær um nýgerðan kjarasamning SA og SGS sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Góðar og miklar umræður urðu um samninginn. Formaður Framsýnar fór yfir helstu atriði samningsins og síðan var opnað fyrir fyrirspurnir. Í máli fundarmanna kom fram almenn ánægja með samninginn enda standi stjórnvöld og sveitarfélögin við sínar yfirlýsingar er varðar nokkra þætti sem hafa mikil áhrif á afkomu fólks, ekki síst þeirra tekjulægstu. Í lok fundar var skorað á félagsmenn að greiða atkvæði um kjarasamninginn en atkvæðagreiðslu lýkur næstkomandi miðvikudag kl. 09:00. Alls eru 1.072 á kjörskrá hvað þennan kjarasamning varðar. Til viðbótar má geta þess að forsvarsmenn Framsýnar eru tilbúnir að mæta á vinnustaði með kynningu á samningnum. Nú þegar hafa starfsmenn hjá tveimur fyrirtækjum óskað eftir kynningarfundum. Búið er að setja þá á, strax eftir helgina.(Mynd úr safni)

Deila á