Breiðfylkingin, sem samanstendur m.a. af Starfsgreinasambandinu sem Framsýn á aðild að hefur undirritað nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara á sjötta tímanum í dag. Um er að ræða langtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.
Meginmarkmið samnings
- Lækkun verðbólgu og vaxta með samstilltu átaki verkalýðshreyfingar, ríkis, atvinnurekenda, sveitarfélaga og annarra.
- Endurreisn tilfærslukerfa heimila vinnandi fólks.
- Kaupmáttaraukning verði á samningstímanum.
Launahækkanir
Hækkanir eru á formi blandaðrar leiðar krónutölu og prósentu. Launahækkanir koma til áhrifa á fjórum dagsetningum með árs millibili á samningstíma.
1. febrúar 2024 | 3,25% eða að lágmarki 23.750 kr. |
1. janúar 2025 | 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr. |
1. janúar 2026 | 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr. |
1. janúar 2027 | 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr. |
Krónutöluhækkun á samningstíma er 95.000 kr. sem jafngildir 24% hækkunar lægstu launa.
Aðrir kjaratengdir liðir taka almennum hækkunum í kjarasamningi.
Ár | Orlofsuppbót | Desemberuppbót |
2024 | 58.000 kr. | 106.000 kr. |
2025 | 60.000 kr. | 110.000 kr. |
2026 | 62.000 kr. | 114.000 kr. |
2027 | 64.000 kr. | 118.000 kr. |
Forsenduákvæði
Samningurinn stendur og fellur með því að markmið um lækkun verðbólgu náist, sem aftur eru forsenda vaxtalækkunar. Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka þegar til starfa. Verkefni nefndarinnar er að fylgjast með framvindu þeirra þátta í efnahagslífinu sem áhrif geta haft á markmið samningsins, leggja formlegt mat á forsendur kjarasamningsins og eftir atvikum semja um viðbrögð við forsendubresti sem treysta forsendur samningsins og stuðla að því að hann haldi gildi sínu.
Einnig eru í samningnum tvö forsenduákvæði sem koma snúa að annars vegar að vörn gegn launaskriði og hins vegar tryggingu launafólks á hlutdeild í framleiðniaukningu.
Framlag stjórnvalda
Framlag stjórnvalda er mikilvægur hluti af ávinningi kjarasamningsins. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaáætlun sem felur í sér fjárframlög til ýmissa mála sem gagnast vinnandi fólki. Er þar um að ræða aukningu ríkisútgjalda um 20 milljarða á ári. Helstu atriðin í framlagi stjórnvalda eru:
- Húsnæðisstuðningur
- Sérstakur vaxtastuðningur vegna hás vaxtakostnaðar
- Húsnæðisbætur – Grunnfjárhæð hækkar. Sérstök viðbót miðast að því að styðja betur við fjölmennari fjölskyldur
- Barnafjölskyldur
- Barnabætur, markmiðið er að fjölga viðtakendum barnabóta og að skerðingarmörkin verði hækkuð í átt að miðtekjum
- Fæðingarorlof – Hámarksupphæð hækkar úr 600.000 kr. í 900.000 kr. á tímabilinu
- Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
- Önnur atriði
- Gjaldskrár hins opinbera – Ríkið skuldbindur sig til að hækka ekki umfram 2,5% á árinu 2025. Tilmæli til sveitarfélaga um að endurskoða áður útgefnar hækkanir og halda þeim innan 3,5% vegna barnafjölskyldna.
Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en miðvikudaginn 20. mars næstkomandi.