Töluvert hefur verið um að fjölskyldufólk með börn á framfæri hafi verið í sambandi við Skrifstofu stéttarfélaganna vegna gjaldskrárbreytinga hjá Norðurþingi um síðustu áramót. Í allt of mörgum tilfellum hafa hækkanirnar komið sér afar illa við fólk enda um að ræða verulegar hækkanir í ákveðnum tilfellum. Eftir samtöl við stjórnendur sveitarfélagsins og skoðun þeirra á kvörtunum viðkomandi íbúa hefur Fjölskylduráð Norðurþings ákveðið að endurskoða afsláttarkjörin á milli leikskóla og Frístundar sem ber að fagna enda afar erfitt fyrir marga að taka á sig verulegar hækkanir, jafnvel sem nema tugum prósenta.
Eftirfarandi var bókað í Fjölskylduráði, samkvæmt ákvörðun ráðsins er málið komið í leiðréttingafarveg:
Tillaga að endurskoðun á afsláttarkjörum á milli leikskóla og Frístundar. Málsnúmer 202402093
Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar tillögu Jónasar Þórs Viðarssonar, fyrir hönd V lista, og Ísaks Más Aðalsteinssonar, fyrir hönd S lista, um að tenging afsláttakjara á milli leikskóla og frístundar fyrir 1.-4. bekk verði endurskoðuð, þ.e. að systkinaafsláttur fyrir systkini í leikskóla og Frístund verði settur á eins og áður var.
Helena Eydís Ingólfsdóttir, fyrir hönd D lista, Bylgja Steingrímsdóttir og Hanna Jóna Stefánsdóttir fyrir hönd B lista leggja fram eftirfarandi breytingartillögu um að tenging afsláttarkjara á milli leikskóla og frístundar fyrir 1.-4. bekk verði aftur komið á, afsláttarkjör verði 30% fyrir barn nr. 2 og 70% fyrir barn nr. 3. Ákvörðunin verði afturvirk til síðustu áramóta.
Jafnframt leggja undirritaðar til að tekjuviðmið verði endurskoðuð að nokkrum mánuðum liðnum þannig að þau endurspegli á sem bestan hátt tekjur íbúa sveitarfélagsins.
Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.
Fræðslufulltrúa er falið að uppfæra gjaldskrár og starfsreglur leikskóla og frístundar til samræmis og leggja fyrir ráðið.