Starfsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fóru í náms- og kynnisferð til Færeyja um síðustu helgi. Með í för voru makar starfsmanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsemi verkalýðsfélaga og stöðu verkafólks og sjómanna í Færeyjum auk þess að heimsækja Aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum. Sendinefndinni frá Húsavík var alls staðar mjög vel tekið sem full ástæða er til að þakka kærlega fyrir.
Formaður Sjómannasambands Færeyja, Jan Højgaard, bauð gestunum í heimsókn í höfuðstöðvar sambandsins í Þórshöfn þar sem hann fór yfir stöðu sjómanna og komandi kjaraviðræður við atvinnurekendur. Fækkað hefur í sambandinu á undanförnum árum sem á sér þær helstu skýringar að fiskiskipum hefur fækkað um leið og þau hafa orðið stærri og öflugri. Sama þróun hefur verið á Íslandi. Þá þáði hópurinn boð til ræðismanns Íslands í Þórshöfn sem fór yfir hlutverk sitt og skrifstofunnar í Færeyjum sem og efnahagsástandið. Virkilega áhugaverð heimsókn. Það voru þær Ágústa Gísladóttir aðalræðismaður Íslands og Brynja Ósk Birgisdóttir fulltrúi sem tóku á móti gestunum og fóru yfir stöðu mála í Færeyjum. Þá var komið að því að heimsækja Færeyska verkamannasambandið sem lagði mikið upp úr því að taka vel á móti hópnum frá Íslandi. Formaður sambandsins, Georg F. Hansen fór fyrir fulltrúum stéttarfélaganna í Færeyjum, þau voru: Elin Sørensen, Maud Túgvustein, Amy Mortensen, Sonja Jógvansdóttir og Jan Højgaard formaður Sjómannasambandsins sem valdi að taka jafnframt þátt í móttökunni hjá Færeyska verkamannasambandinu. Eftir góða kynningu á málefnum verkafólks í Færeyjum var gestunum boðið í kynnisferð um Færeyjar og í hádegisverð. Nýjustu göngin í Færeyjum voru meðal annars skoðuð en þau liggja til Sandeyjar sem eru um 11 km löng. Göngin eru glæsileg í alla staði en eins og kunnugt er leggja Færeyingar mikið upp úr góðum samgöngum á sjó og landi, eitthvað sem við Íslendingar gætum lært af. Að sjálfsögðu fannst forsvarsmönnum Færeyska verkamannasambandsins við hæfi að sýna gestunum frá Íslandi þorpið Húsavík enda komandi frá Húsavík á Íslandi. Ekki má svo gleyma því að heiðurshjónin Hilmar Joensen og frú Gunnvør Joensen frá Nolsoy, sem er rétt við Þórshöfn, litu til gestana frá Húsavík sem dvöldu á Hótel Hafnia meðan á ferðinni stóð. Formaður Framsýnar og Hilmar störfuðu um tíma saman að samnorrænu verkefni er tengist sjávarbyggðum og menningarlífi í smærri byggðalögum á Norðurlöndunum. Ferðir sem þessar eru mjög mikilvægar enda alltaf áhugavert að fræðast um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar í öðrum löndum um leið og þeim býðst að fræðast um stöðuna á Íslandi sem vakti reyndar athygli hjá þeim en fulltrúar Framsýnar fóru yfir stöðuna á Íslandi og yfirstandandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.