Við gerum betur og betur við okkar félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum. Aðild félagsins að fræðslusjóðnum Landsmennt gerir félaginu þetta kleift. Hækkanirnar taka gildi frá og með 1. janúar 2024.
Það er ánægjulegt að kynna þessa breytingu en með þessu er leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er. Þessi breyting mun vonandi verða til þess að enn fleiri geti sótt og greitt fyrir nám eða námskeið sem teljast til starfsmenntunar.
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260.000,- eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,- fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðsins. Tveggja ára reglan kemur ný inn frá síðustu áramótum. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000,- á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kemur þó til frádráttar fullum rétti.
Samhliða breytingunum um síðustu áramót hækkar endurgreiðsluhlutfallið úr 80% í 90% af námskeiðsgjaldinu, þó að hámarki kr. 130.000.- á ári. Til viðbótar má geta þess að fullgildir félagsmenn Framsýnar eiga rétt á extra styrk kr. 100.000,-. stundi þeir kostnaðarsamt nám.