Árið 2008 lauk sameiningu stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum innan ASÍ, reyndar hefur Verkalýðsfélag Þórshafnar staðið utan við þessa sameiningu fram að þessu en starfar mjög náið með Framsýn stéttarfélagi. Félögin sem sameinuðust á sínum tíma voru Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verslunarmannafélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Verkalýðsfélag Öxarfjarðar. Sameinuðust þau undir nafninu Framsýn stéttarfélag. Fengin var grafískur hönnuður til að hanna merki fyrir félagið. Í umfjöllun um merkið segir:
Merki Framsýnar stéttarfélags táknar framsýni og skarpskyggni.
Merkið er að mestu í rauðum lit sem er traustur litur og heitur sem hæfir vel stéttarfélagi sem vill njóta virðingar og trausts meðal félagsmanna og landsmanna allra. Merkið er víkinga segl en markmið félagsins verður að gefa fólki byr í seglin með því að sækja fram í réttindabaráttu félagsmanna og þar með samfélagsins í heild. Víkingaseglið hefur einnig með upprunann okkar að gera. Seglið hefur ákveðna merkingu um sameiningu, þar sem marga þarf til að sigla víkinga skipum. Formin eru mjúk og hvöss. Þá er skriftin glaðleg og nútímaleg.
Merkið er hannað af Bjarka Lúðvíkssyni. Bjarki er þekktur grafískur hönnuður sem útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 1999. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem grafískur hönnuður. Bjarki hefur hannað mörg þekkt merki sem m.a. hafa hlotið íslensku markaðsverðlaunin. Þá hafa merki sem hann hefur hannað komist í bók sem gefin er út í Evrópu sem tekur á bestu merkjum sem gerð eru í Evrópu ár hvert. Meðal merkja sem hann hefur hannað eru merki Glitnis, Samtakana 78, Landic, Actavis og nú Framsýnar.