Framsýn og Þingiðn hafa samþykkt að auka enn frekar þjónustu við félagsmenn með kaupum á tveimur orlofsíbúðum í parhúsi sem er í byggingu á Húsavík, nánar tiltekið við Hraunholt 22. Félagsmönnum utan Húsavíkur sem þurfa á gistingu að halda vegna veikinda stendur einnig til boða að fá íbúðirnar leigðar þurfi þeir að vera tímabundið nálægt Heilbrigðisstofnun Þingeyinga af heilsufarsástæðum. Ákvörðunin um kaupin var tekin á sameiginlegum félagsfundi félaganna 21. nóvember þar sem tillaga um kaup á íbúðunum var samþykkt samhljóða.
Um er að ræða 118 m2. íbúðir með geymslu. Íbúðirnar verða full frágengnar með lóð og upphituðu bílastæði. Verðmatið per íbúð er 69.350.000,-. Áætlað er að íbúðirnar verði klárar 1. ágúst 2024. Verktakinn er Ragnar Hjaltested. Reiknað er með að skrifað verði undir samning um kaupin á allra næstu dögum. Hugmyndin er að íbúðirnar standi félagsmönnum til boða frá haustinu 2024 en um 60% félagsmanna Framsýnar búa utan Húsavíkur eða tæplega 2.000 félagsmenn, þá eru félagsmenn Þingiðnar einnig dreifir um félagssvæðið.
Jafnframt er til skoðunar að nota íbúðirnar í skiptum, hluta úr ári, fyrir önnur orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík, sérstaklega yfir sumartímann.
Félögin skoðuðu hvort þau ættu að fjárfesta í orlofshúsum í orlofsbyggðum t.d. á Suðurlandinu í stað þess að fjárfesta í orlofsíbúðum á Húsavík. Eftir skoðun var samþykkt samhljóða að fjárfesta frekar í íbúðum á Húsavík enda miklu betri nýting á slíkum íbúðum heldur en í orlofsbyggðum þar sem nýtingin á ársgrundvelli er um 12 vikur yfir sumarmánuðina. Auk þess sem það er miklu kostnaðarasamara að reka orlofshús í skipulögðum orlofsbyggðum en á Húsavík. Full ástæða er til að óska félagsmönnum Þingiðnar og Framsýnar til hamingju með kaupin á íbúðunum sem koma til með að fjölga orlofskostum félagsmanna umtalsvert á komandi árum.