Björn Snæbjörnsson fyrrverandi formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands kom við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík fyrir helgina. Björn lét af formennsku hjá Einingu-Iðju í apríl 2023 eftir að hafa gegnt formennsku í félaginu í 31 ár, en í heildina hefur Björn starfað í yfir 40 ár fyrir félagið. Björn hefur verið virkur í starfi Starfsgreinasambands Íslands frá upphafi og lét af störfum sem formaður sambandsins á þingi þess 2021 eftir að hafa gegnt því embætti frá árinu 2012 og þar á undan sem varaformaður.
Í gegnum tíðina hefur Björn auk þess starfað mjög náið með forsvarsmönnum Framsýnar enda liggja félagssvæði félaganna saman. Þá hafa félögin verið mjög áberandi í verkalýðsbaráttunni á Íslandi til fjölda ára. Þar sem Björn hefur nú stigið til hliðar eftir áratuga þjónustu við verkafólk þótti við hæfi að Framsýn færði honum smá gjöf í tilefni þessara tímamóta. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, færði Birni gjöfina og húfu frá Framsýn sem hann á örugglega eftir að bera á köldum vetrardögum.