Ágætu fundargestir til hamingju með daginn. Ég heiti Rannveig Benediktsdóttir og er fædd á fyrri hluta síðustu aldar.
Það er skrítið til þess að hugsa að næstum er hálf öld er liðin síðan 24.oktober 1975 rann upp, eða 48 ár. Enn er jafnrétti ekki ná.
Fyrir þessum 48 árum hafði sú sem hér stendur búið á Húsavík í 4 ár. Fór full tilhlökkunar niður í Félagsheimili. Upp var nefnilega runninn þessi merkilegi kvennafrídagur sem hlaut að boða eitthvað, kannski eitthvað stórkostlegt. Konur höfðu ákveðið að fara í verkfall til að leggja áherslu á eigin réttindi. Þær vildu sömu laun og karlmenn fyrir sömu vinnu. Það viljum við allar enn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, mjög mikið. Meira að segja heilu jöklarnir hér á Íslandi er á leið til hafs.
Það hefur þokast í rétta átt, en gengur hægt finnst mögum, mjög skiljanlega. Þokast þó í rétta átt. Samt eru hér enn hópar sem lepja dauðann úr skel og eiga jafnvel ekki fyrir salti í grautinn um mánaðarmót. Eru undir útgefnum tekjuviðmiðunarmörkum stjórnvalda í launum og eiga því ekki að lifa af á þeim launum sem þeir fá. Þetta er ekki eins og það á að vera. Við erum ríkt samfélag. Þetta þarf að laga.
Á fyrri hluta síðustu aldar var ég alin upp við að ekkert starf væri svo ómerkilegt að það þyrfti ekki alltaf einhver að vinna það. Ekki skipti máli hvort það var kona eða karl. Þetta á við enn þann dag í dag. Störfin þarf alltaf einhver að vinna.
Við komu í Félagsheimilið fyrir þessum 48árum var húsið fullt af konum á öllum aldri, héðan frá Húsavík og úr nærliggjandi sveitum. Ég hafði ekki áttað mig á að svona margar konur væru hérna, en sjónin talaði sínu máli.
Andrúmsloftið var þykkt af samstöðu, hún var nánast áþreifanleg, það er ógleymanlegt. Að vera hluti af svona stórum hóp þar sem allir réru í sömu átt og ætluðu að róa áfram í sömu átt.
Hef aðeins eitt skipti seinna fundið þessa samstöðu tilfinningu það var þega við og ég segi við kusum Vigdísi til forseta. Það var líka alveg magnað.
Til dagsins í dag.
Langar að vitna hér í grein sem ég las í DVl í liðinni viku.
Þar spyr Unnar Karl Halldórsson eigandi Lóðaþjónustunnar í Reykjavík „þær grenjuskjóður (meinar karla) sem hafa látið i sér heyra og mótmælt kvennaverkfalli. Konur séu ekki að taka nein réttindi af körlum heldur séu þær hreinlega með þá eðlilegu kröfu að fá borgað fyrir sína vinnu jafn mikið og karlar í sömu stöðu. Hann skilur ekki hvers vegna þeir eru allir að væla, segir að dagurinn sé merkilegur á margan hátt, sá baráttudagur sem mestu púðri er eytt í afvegaleiða. Hann bendir körlum á að stæðu þeir frammi fyrir því að ákveðið væri á öllum vinnustöðum að karlar fengju lægri laun en konur fyrir sömu störf, þá myndu þeir ekki taka karlafrídag, heldur ekki karlaverkfallsdag , mjög líklega karlauppsagnardag.“ Greinin í heild er mikið lengri, það var gaman að lesa hana. Fletti Lóðaþjónustunni upp á netinu og fyrirtækið er með jafnlaunavottun.
Enn þá er von, mikil von að ná jafnrétti, vonandi fyrir næstu aldamót, það er vinna, meiri vinna og enn þá meiri vinna,
Hjálpist allir að þá náum við takmarkinu.
Því segi ég við ykkur
Haldið áfram. Haldið ótrauð áfram.