Óhætt er að segja að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands séu rík af mannauði og frábæru starfsfólki sem nýtir reynslu sína og hæfni til að liðsinna félagsmönnum og greiða þeirra leið. Það sást berlega þegar tæplega 40 starfsmenn aðildarfélaga SGS komu nýverið saman á fræðsludögum SGS. Þátttaka á fræðsludögunum fór fram úr björtustu vonum og aldrei hafa fleiri starfsmenn sótt fræðsludagana.
Þau málefni sem tekin voru fyrir á fræðsludögunum að þessu sinni voru einkar fjölbreytt. Hæst ber að nefna umræðu um kjaramál, vinnustaðaeftirlitið, afgreiðslu sjóða, orlofshúsin, tölvukerfi félaganna, krefjandi samskipti og einnig var rætt um möguleika á frekari samvinnu milli félaga. Anna Steinsen frá KVAN hristi svo upp í hópnum með líflegu erindi um liðsheild og jákvæð samskipti sem féll í góðan jarðveg.
Þetta var í sjöunda sinn sem SGS stendur fyrir fræðsludögum af þessu tagi og hefur almenn ánægja ríkt með þennan vettvang sem gerir starfsfólki aðildarfélaganna kleift til að hittast, mynda tengsl og læra hvert af öðru. Jónína Hermannsdóttir og Agniesza Szczodrowska foru fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og voru þær mjög ánægðar með fræðsludagana sem fram fóru í Keflavík.