Fyrir helgina óskuðu forsvarsmenn Íslandsbanka eftir fundi með Framsýn um áframhaldandi bankaviðskipti. Framsýn og önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa mörg undanfarin ár verið í viðskiptum við Íslandsbanka. Frá bankanum komu Jón Guðni Ómarsson bankastjóri, Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri og Margrét Hólm Valsdóttir útibústjóri Íslandsbanka á Húsavík. Frá Framsýn tóku þátt í fundinum Aðalsteinn Árni formaður félagsins og Elísabet Gunnarsdóttir fjármálastjóri. Þá var formaður Þingiðnar einnig á svæðinu en félagið er meðeigandi með Framsýn í Hrunabúð sem er fasteignafélag í eigu þessara tveggja stéttarfélaga. Eins og kunnugt er hefur verið óróleiki í kringum Íslandsbanka vegna þeirra lögbrota sem framin voru við sölu á hlutum ríkisins í bankanum í marsmánuði 2022. Hvað það varðar ályktaði Alþýðusambandið nýlega um málið og gerði alvarlegar athugasemdir við gjörninginn. Fulltrúar Framsýnar komu sínum skoðunum, varðandi söluna á bréfunum í bankanum, vel á framfæri við gestina frá Íslandsbanka. Framsýn tekur heilshugar undir með Alþýðusambandinu varðandi alvarleika málsins.