Fulltrúar frá Framsýn fóru í hefðbundið vinnustaðaeftirlit í dag í Kelduhverfi og komu þeir víða við. Veggur veitingahús sem er við Dettifossveg í Kelduhverfi, við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs og hinn svokallaða Demantshring var m.a. heimsótt. Náttúran umhverfis staðinn státar af mikilli fegurð og eru nokkrar af helstu náttúruperlum landsins á svæðinu, til dæmis Ásbyrgi, Vesturdalur, Hólmatungur og Dettifoss. Staðurinn býður upp á spennandi rétti úr héraði sem gestir geta snætt í björtum og fallegum veitingasal með stórkostlegu útsýni yfir Kelduhverfi. Megin uppistaða matseðils Veggs veitingahúss er úr héraði og nærumhverfinu, enda vilja eigendur stuðla að minna kolefnisspori en ella og leitast við að færa söluna nær uppruna sínum. Í samtölum við eigendur og starfsmenn voru þeir almennt ánægðir með sumarið, fjölmargir ferðamenn hefðu komið við og notið veitinga um náttúrunnar.