Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram lagafrumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Það á að tryggja rétt launafólks til að velja sér stéttarfélag. Auk þess er lagt bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda á rétt launafólks til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem það tilheyrir ekki og afnema greiðsluskyldu félagsbundinna launamanna til stéttarfélaga þar sem þess er krafist í lögum eða kjarasamningum. Ljóst er að frumvarpið er alvarleg aðför að sjálfstæði stéttarfélaga og íslenskri verkalýðshreyfingu. Framsýn kom á framfæri alvarlegum athugasemdum við frumvarpið. Það er von félagsins að verkalýðshreyfingin og vel hugsandi alþingismenn muni gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn um þingið enda víðáttu vitlaust og rúmlega það. Þá hefur formaður Framsýnar skrifað greinar um alvarleika málsins og hafa þær fengið mjög góðar undirtektir lesenda.