Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagið aðstoðaði flóttafólk frá Úkraínu

Því miður geisar stríð í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður frá Rússlandi heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Reyndar fyrir heimsbyggðina alla. Hörmungarnar hafa ratað inn á borð Framsýnar. Alþjóðasamfélagið verður að gera allt til að stoppa þetta ömurlega stríð. Hvað það varðar getur enginn setið hjá. Almenningur verður að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og þjóðarleiðtogar heimsins eru hvattir til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum. Hvað Framsýn varðar hefur félagið ekki setið hjá. Félagið kom að því að leggja flóttafólki frá Úkraínu til íbúð í Asparfelli í Reykjavík í gegnum hjálparsamtök. Mæðgur með lítið barn frá Úkraínu fluttu inn í íbúðina 1. maí 2022 sem er táknrænt enda ber dagurinn upp á alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Flóttafólkið var í íbúðinni til 1. mars 2023. Félaginu hafa borist kærar kveðjur frá flóttafólkinu sem þakkar kærlega fyrir hlýhug þess í þeirra garð á þessum erfiðu tímum.

Deila á