Það er með miklum ólíkindum að samninganefnd ríkisins skuli hunsa sanngjarnar kröfur Starfsgreinasambandsins um sömu laun fyrir sömu vinnu. Samningar hafa nú verið lausir frá 31. mars 2023. Ríkið hefur ekki fallist á að sama launatafla gildi fyrir félagsmenn Starfsgreinasambandsins og aðildarfélaga BSRB sem gegna sambærilegum störfum á ríkisstofnunum. Slík afstaða stenst ekki jafnræði eða jafnlaunavottun. Þess vegna ekki síst er krafa Starfsgreinasambandsins að ríkið komi til móts við félagsmenn aðildarfélaga sambandsins og greiði þeim sömu laun fyrir sömu vinnu og aðrir hópar launafólks fá. Kjaradeilan er á borði ríkissáttasemjara. Framsýn telur vinnubrögð samninganefndar ríkisins með miklum ólíkindum og krefst þess að komið verði til móts við kröfur Starfsgreinasambandsins, ef ekki, hvetur Framsýn til þess að boðað verði þegar í stað til verkfallsaðgerða á ríkistofnunum um landið allt enda 18 stéttarfélög innan sambandsins. Innan Framsýnar eru um 180 félagsmenn sem starfa hjá ríkinu.