„Þetta útspil hjá Seðlabankanum er stórundarlegt á sama tíma og menn sitja í Karphúsinu og reyna að ná fram samningum,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, í samtali við mbl.is spurður út í stýrivaxtahækkunina.
„Ég velti því fyrir mér hvort að Seðlabankinn sé kominn í sömu stöðu og verið er að saka verslanir í landinu um núna, að byrja á því að hækka vöruna og lækka hana svo aftur á föstudaginn þegar öll tilboðin eru í gangi. Það er verið að saka þær um að vera að hækka vöruna og lækka hana svo aftur og því velti ég því fyrir mér hvort Seðlabankinn sé að gera þetta núna, til þess að geta svo spilað út einverri lækkun síðar til að koma til móts við þá sem sitja að í Karphúsinu. Þetta er bara bein árás og alvarlegur hlutur að einhverjum skuli láta sér detta þetta í hug,“ segir Aðalsteinn um stýrivaxtahækkunina.
„Er Seðlabankinn að búa sér til stöðu svipað og verslanir? Eða eins og einn verkamaður sagði við mig; er þetta bara orðin svona hipsumhaps fjármálastjórn í landinu?“ bætir Aðalsteinn við.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/23/storundarlegt_utspil_hja_si/