Innan Framsýnar stéttarfélags er starfandi ungliðaráð sem skipað er til eins árs í senn. Skipun í ráðið fer fram á fundi stjórnar- og trúnaðarráðs félagsins í október á hverju ári.
Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Núverandi formaður er Guðmunda Steina Jósefsdóttir.
Ungliðaráðið starfar innan Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG.
Ungliðaráðið starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar. Þá er ungliðaráðið jafnframt tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ og landssambanda þeirra á hverjum tíma. Um er að ræða lifandi og fræðandi starf fyrir ungt og áhugasamt fólk sem vill leggja sitt að mörkum til að gera heiminn betri fyrir komandi kynslóðir. Þeir sem eru tilbúnir að taka þátt í þessu gefandi starfi er bent á að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is.