Aðalfundur Framsýnar fór fram í kvöld. Mikil ánægja kom fram með starfsemi og rekstur félagsins og voru starfsmenn félagsins hylltir af fundarmönnum. Vegna góðrar afkomu var ákveðið að hækka flesta styrki til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins. Þá munu allir fullgildir félagsmenn sem sækja nám/námskeið á eigin vegum fá áfram auka framlag kr. 100.000,- frá félaginu til viðbótar kjarasamningsbundnum námsstyrkjum frá fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Sveitamennt, Sjómennt og starfsmenntasjóði verslunarmanna. Samþykkt var að gefa í söfnun til kaupa á meðferðastólum sem verið er að skoða í sambandi við krabbameinslyfjagjöf á Almennu Göngudeildinni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þá voru reglur um réttindi félagsmanna við starfslok samþykktar samhljóða. Hér má lesa helstu upplýsingar úr skýrslu stjórnar, nýju reglurnar um réttindi félagsmanna við starfslok og þær hækkanir á útgreiðslum úr sjúkrasjóði sem samþykktar voru á aðalfundinum. Á síðasta ári fengu félagsmenn greiddar tæplega 60 milljónir í styrki vegna veikinda og fyrirbyggjandi aðgerða. Ljóst er að Framsýn er eitt öflugasta stéttarfélag landsins þegar kemur að þjónustu við félagsmenn og styrki úr sjóðum félagsins. Aðhald í rekstri tryggir félagsmönnum þetta forskot á flest önnur sambærileg stéttarfélög. Þá er skrifstofa félagsins opin 8 tíma á dag, alla virka daga.
Félagatal
Alls greiddu 2.731 félagsmenn til Framsýnar stéttarfélags á árinu 2021 en greiðandi félagar voru 2.644 árið 2020. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði aðeins milli ára. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.601 karlar og 1.130 konur sem skiptast þannig, konur eru 41% og karlar 59% félagsmanna. Kynjahlutfallið í félaginu hefur verið að jafnast í félaginu eftir að verklegum framkvæmdum við byggingu PCC á Bakka og á Þeistareykjum lauk árið 2019. Flest bendir til þess að kynjahlutfallið muni jafnast frekar á næstu árum.
Fjármál og innheimtumál
Fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2021 þrátt fyrir að enn gæti einhverra áhrifa frá covid.
Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 288 milljónum sem er hækkun um 13% milli ára. Þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af hærri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 241 milljónum 2021 á móti kr. 215 milljónum á árinu 2020 sem er hækkun upp á um 12%.
Rekstrargjöld lækka um 7% á milli ára en þau námu kr. 185 milljónum 2022. Þessi lækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði sem eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Greiðslur úr sjúkrasjóði lækkuðu um 7 milljónir samanborið við 2020. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 48 milljónum. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu saman tæpar kr. 6 milljónir til rekstursins. Fjármagnstekjur námu kr. 71 milljón en voru 62 milljónir á síðasta ári. Í árslok 2021 var tekjuafgangur félagsins kr. 167 milljónir en var kr. 112 milljónir árið 2020.
Bætur og styrkir
Á árinu 2021 voru 1.226 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði félagsins en voru 1.085 árið 2020. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 59.943.190,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 68.530.811,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu er þó nokkur lækkun á greiðslum úr sjúkrasjóði milli ára eða sem nemur um 12,5%.
Kjaramál
Hvað kjaramálin varðar var síðasta ár almennt rólegt hvað það varðar enda kjarasamningar ekki lausir. Gildistími þeirra kjarasamninga sem Framsýn á aðild að eru til 2022 og/eða 2023. Hins vegar hefur töluverð vinna farið í gerð stofnanasamninga á vegum Framsýnar. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga skal gera slíka samninga við allar ríkisstofnanir. Vinnu við stofnanasamningana átti að vera lokið um áramótin 2020/21 þegar ný launatafla tók gildi hjá ríkisstarfsmönnum. Framsýn hafði forræði yfir samningum við Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum og lauk þeirri vinnu á tilsettum tíma. Þá kláraði Framsýn stofnanasamning við HSN í samstarfi með öðrum stéttarfélögum á Norðurlandi sem aðild eiga að stofnanasamningnum. Gengið var frá samningnum í janúar 2021. Vinna við aðra stofnanasamninga sem snerta félagsmenn Framsýnar er á forræði Starfsgreinasambands Íslands, það er við Skógræktina á Vöglum, Vegagerðina og Vatnajökulsþjóðgarð. Því miður er þeirri vinnu ekki lokið en samningaviðræður standa yfir milli samningsaðila. Formaður Framsýnar hefur tekið virkan þátt í þessum viðræðum. Þann 30. mars 2022 var gengið frá endurnýjuðum sérkjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík. Afar mikilvægt er að viðhalda þessum samningi. Unnið hefur verið að því að taka upp nýtt bónuskerfi hjá PCC á Bakka. Þeirri vinnu miðar vel. Bónuskerfinu er ætlað að færa starfsmönnum töluverðar launahækkanir. Í dag hafa starfsmenn fengið fastan 8% bónus. Nýja bónuskerfið ætti að gefa starfsmönnum 20 til 30% bónus en hann verður framleiðslutengdur. Það er ekki nýtt að sjómenn séu samningslausir. Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi rann út 1. desember 2019. Frá þeim tíma hafa viðræður gengið illa og ekki er séð fyrir endann á þeirri kjaradeilu. Í aðdraganda viðræðna Sjómannasambandsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi mótaði Sjómannadeild Framsýnar kröfugerð sem komið var á framfæri við Sjómannasamband Íslands. Til viðbótar má geta þess að töluverð vinna hefur verið á vegum Framsýnar í kringum vinnutímabreytingar starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem samið var um í síðustu kjarasamningum sem tóku gildi 1. janúar 2021 hjá mánaðarkaupsfólki og hjá vaktavinnufólki 1. maí 2021. Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu. Kjarasamningar á almenna markaðinum losna í haust, það er 1. nóvember. Framsýn hefur þegar veitt Landssambandi ísl. verslunarmanna og Starfsgreinasambandi Íslands samningsumboð félagsins. Þá hefur Framsýn mótað kröfugerðir sem komið hefur verið á framfæri við landssamböndin. Kröfugerðirnar eru meðfylgjandi þessari skýrslu.
Atvinnumál og atvinnuleysi
Á árinu 2021 var atvinnuástandið á félagssvæðinu óviðunandi enda ferðaþjónustan lömuð vegna Covid. Reikna má með því að ferðaþjónustan í Þingeyjarsýslum nái sér á strik á árinu 2022 en frekar lítið hefur verið um erlenda ferðamenn síðustu tvö ár. Hins vegar hafa Íslendingar verið duglegir við að ferðast innanlands. Nú er svo komið að vöntun er á starfsfólki í flest störf. Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur verið ferðaþjónusta, iðnaður, sjávarútvegur, landbúnaður og opinber þjónusta. Almennt hefur atvinnulífinu tekist vel að komast í gegnum Covid tímabilið, það er fyrir utan ferðaþjónustuna sem hefur átt frekar erfitt uppdráttar.
Framsýn kom að því að gera athugasemdir við uppsagnir á ræstingarfólki hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Ályktað var um málið. Sjö starfsmönnum við ræstingar var sagt upp störfum vegna hagræðingar. Ræstingarnar voru þess í stað boðnar út. Starfsmönnum var tilkynnt um þessar breytingar á fundi með yfirmönnum HSN í lok apríl 2022 um leið og þeim voru afhent uppsagnarbréfin. Formaður Framsýnar tók jafnframt þátt í fundinum enda óskuðu starfsmenn eftir nærveru hans. Uppsögnum var mótmælt harðlega og skorað á stjórnendur HSN að endurskoða ákvörðunina um uppsagnirnar sem þeir höfnuðu. Ákvörðun stjórnenda HSN að úthýsa ræstingunum til verktaka hafa eðlilega vakið töluverða athygli og verið gagnrýnd, enda vandséð hvernig það getur leyst vanda stofnunarinnar að segja upp starfsmönnum á lægstu kjörunum. Framsýn krafði HSN um upplýsingar um forsendur og tilgang þessara breytinga að bjóða út ræstingarnar. Upplýsingarnar hafa nú borist félaginu og eru til skoðunar. Framsýn hefur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun um að veita atvinnuleitendum á félagssvæðinu góða þjónustu. Hvað það varðar hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lagt starfsmanni Vinnumálastofnunar til skrifstofu að kostnaðarlausu en stofnunin hefur séð um að greiða starfsmanninum laun. Núverandi starfsmaður hefur bæði starfsstöðvar á Akureyri og Húsavík. Það er, hann er í hlutastarfi á Húsavík.
Vinnustaðaeftirlit
Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Félögin hafa nú lagt starfið niður. Þess í stað sjá starfsmenn stéttarfélaganna um eftirlitið með öðrum störfum á skrifstofunni. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Vissulega var lítið um vinnustaðaeftirlit á árinu 2021 og það sem af er þessu ári vegna Covid. Framundan eru án efa bjartari tímar og þá verður um leið settur aukinn kraftur í vinnustaðaeftirlitið.
Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Framsýn á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og fjórar íbúðir í Kópavogi, eina á Akureyri og eina í Reykjavík. Orlofshúsið í Dranghólaskógi hefur verið notað í leiguskiptum á sumrin fyrir annað orlofshús í Svignaskarði í Borgarfirði sem er í eigu Eflingar. Leiguskiptin hafa komið vel út. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð að Garðarsbraut 26, efri hæð, sem þau eignuðust á síðasta ári. Íbúð félagsins í Asparfelli var tekin í gegn enda var löngu orðið tímabært að ráðast í lagfæringar á íbúðinni. Íbúðin var máluð, skipt var um filmu í svalahurð, nýjar innihurðir voru smíðaðar sem og nýr fataskápur í hjónaherbergið. Heildarkostnaður við breytingarnar var um 1.500.000,-. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000 fyrir viku dvöl í þeim húsum sem félagið er með á leigu hjá öðrum aðilum. Þá fengu 78 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.506.910,-. Árið áður fengu 96 félagsmenn þessa styrki, samtals kr. 1.953.063,-. Sumarið 2021 stóðu stéttarfélögin fyrir sumarferð í Flatey á Skjálfanda. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Í haust stendur til að fara í gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti.
Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 12.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur Framsýnar við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma.
Fræðslumál
Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2021 fengu 305 félagsmenn greiddar kr. 21.959.258,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2020 var kr. 19.583.452,-. Í heildina voru 6 styrkir greiddir úr Fræðslusjóði Framsýnar á árinu 2021, samtals kr. 467.625,-. Samtals fengu félagsmenn því greiddar kr. 21.959.258,- í námsstyrki á árinu 2021.
Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um í kjarasamningum. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn. Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á félagssvæðinu.
Þó nokkuð er um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar eftir fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt. Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna reglulega beðnir um að kenna á námskeiðum er tengjast vinnurétti.
Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2022 eftir tveggja ára hlé vegna Covid. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki. Ræðumenn dagsins voru Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir. Athygli vakti að helmingi færri mættu á hátíðarhöldin í ár en undanfarin ár eða um 250 manns. Vissulega var hátíðinni streymt í fyrsta skiptið sem getur hafa haft áhrif á mætinguna sem og Covid. Í ljósi þessa taldi stjórn og trúnaðarráð Framsýnar tímabært að endurskoða hátíðarhöldin, það er með hvaða hætti sé best að halda upp á baráttudag verkafólks á komandi árum. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur þegar skipað nefnd í samráði við Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur sem ætlað er að leggja fram tillögur um tilhögun hátíðarhaldanna í framtíðinni.
Sjómannadeild félagsins
Aðalfundur sjómannadeildar Framsýnar var haldinn föstudaginn 29. desember 2021. Fundurinn fór vel fram, auk aðalfundarstarfa urðu líflegar umræður um málefni sjómanna og stöðuna í kjaraviðræðunum við útgerðarmenn SFS. Engin gleði er innan sjómanna með það mikla virðingarleysi sem SFS sýnir samtökum sjómanna með því að ganga ekki frá nýjum kjarasamningi við sjómenn sem hafa verið samningslausir á annað ár.
Á síðasta ári voru 100 sjómenn skráðir í deildina sem greiðandi félagar og 10 sem gjaldfrjálsir. Samtals félagar voru því 110. Engin heiðrun sjómanna fór fram 2021 vegna Covid- 19. Í ár voru Aðalsteinn Ólafsson og Hreinn Jónsson heiðraðir á Sjómannadaginn. Stjórn deildarinnar skipa, Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Aðalsteinn Steinþórsson, Börkur Kjartansson, Gunnar Sævarsson og Héðinn Jónasson.
Deild verslunar- og skrifstofufólks
Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks var haldinn 10. febrúar 2022. Á fundinum voru tekin fyrir almenn aðalfundarstörf auk þess sem kjaramál voru til umræðu enda kjarasamningar lausir 1. nóvember í haust. Stjórn deildarinnar skipa, Elva Héðinsdóttir formaður, Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir, Trausti Aðalsteinsson, Karl Hreiðarsson og Anna Brynjarsdóttir.
Framsýn-UNG
Framsýn leggur mikið upp úr því að halda uppi öflugu starfi innan félagsins er viðkemur ungum félagsmönnum. Innan félagsins er starfandi ungliðaráð. Ráðið skipa: Guðmunda Steina Jósefsdóttir, Elva Héðinsdóttir og Sunna Torfadóttir. Guðmunda Steina er formaður Framsýnar-ung. Ungliðarráðið hefur verið virkt og tekið þátt í fundum stjórnar og trúnaðarráðs félagsins auk þess að sitja ungliðafundi á vegum Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands.
Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. Ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum er Ágúst Sigurður Óskarsson og er hann til staðar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sími 464-6600 og netfang virk@framsyn.is.
Samkomulag við Flugfélagið Erni
Framsýn er með samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að Framsýn gerir magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félagið hefur sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan félagið hóf að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með nýlega endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið tókst Framsýn að tryggja félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2022. Verð til félagsmanna í dag er kr. 12.000,- per flugmiða/kóða.
Hrunabúð sf.
Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26, kr. 48 milljónir. Heildarvelta félagsins árið 2021 var kr. 7,6 milljónir samanborið við kr. 5,7 milljóna veltu árið 2020. Tekjuafgangur ársins nam kr. 0,3 milljón samanborið við kr. 0,1 milljón árið 2020. Einn starfsmaður starfaði hjá félaginu á árinu í hlutastarfi.
Samningur við Verkalýðsfélag Þórshafnar
Verkalýðsfélag Þórshafnar hefur undanfarin ár verið með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna varðandi þjónustu við félagsmenn. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum.
Málefni flóttafólks frá Úkraínu
Því miður geisar stríð í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður frá Rússlandi heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Reyndar fyrir heimsbyggðina alla. Alþjóðasamfélagið verður að gera allt til að stoppa þetta ömurlega stríð. Hvað það varðar getur enginn setið hjá. Almenningur verður að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og þjóðarleiðtogar heimsins eru hvattir til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum. Hvað Framsýn varðar hefur félagið ekki setið hjá. Félagið hefur þegar komið á framfæri hörðum mótmælum við rússneska sendiráðið auk þess að leggja söfnun Rauða krossins á Íslandi til fjármagn kr. 300.000,- til stuðnings flóttafólki frá Úkraínu. Þá samþykkti stjórn og trúnaðarráð félagsins samhljóða að leggja flóttafólki frá Úkraínu til eina af íbúðum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Mæðgur með lítið barn frá Úkraínu fluttu inn í íbúðina 1. maí sem er táknrænt enda ber dagurinn upp á alþjóðlegan baráttudag verkafólks.
Starfsemi félagsins
Framsýn stéttarfélag hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið sendi frá sér 9 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni. Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Þó nokkuð er um að forsvarsmenn félagsins séu beðnir um að flytja erindi á fundum og ráðstefnum auk þess að taka þátt í umræðuþáttum um velferðar og verkalýðsmál enda greinilegt að starf félagsins nýtur mikillar virðingar í samfélaginu. Félagið hefur komið að því að styðja við bakið á ungmenna- og íþróttafélögum á svæðinu, sérstaklega Völsungi og Eflingu. Þá hefur félagið einnig komið að því að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn. Framsýn kom jafnframt að því að styrkja Söngkeppni framhaldsskólana sem fram fór á Húsavík í 3. apríl 2022. Töluverð ásókn er í félagið frá starfsfólki sem starfar ekki á félagssvæði Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau félög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi starfar á enda séu menn að vinna eftir kjarasamningum sem gilda fyrir félagsmenn Framsýnar. Þessa reglu vill Framsýn stéttarfélag virða. Námstefna á vegum Ríkissáttasemjara var haldin á Húsavík dagana 15.-17. nóvember 2021. Námstefnan var ætluð einstaklingum sem eiga sæti í samninganefndum og vinna að kjarasamningagerð, læra nýjustu aðferðir, deila reynslu og efla marksækni og fagmennsku við samningaborðið. Um 50 þátttakendur tóku þátt í námsstefnunni sem komu víða að af landinu. Að ósk ríkissáttasemjara stóðu stéttarfélögin fyrir móttöku fyrir gestina auk þess að kynna fyrir þeim starfsemi aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Við það tækifæri var gestunum jafnframt færðar gjafir frá matvælafyrirtækjum úr heimahéraði líkt og áður hefur verið gert þegar góðir gestir hafa komið í heimsókn.
Húsasmiðjan tók ákvörðun um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um áramótin 2021/22. Framsýn mótmælti lokuninni harðlega og fundaði m.a. með forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar. Þrátt fyrir mótmælin, ekki bara frá Framsýn heldur frá heimamönnum stóð ákvörðunin um að hætta rekstri á Húsavík sem voru mikil vonbrigði. Að frumkvæði Framsýnar komu forstjóri Bykó og aðstoðarmaður hans til Húsavíkur og funduðu meðal annars með formanni félagsins. Einnig héldu þeir fund með fulltrúum úr sveitarstjórn Norðurþings ásamt verktökum og öðrum áhugamönnum um málið. Forsvarsmenn Bykó tóku vel í hugmyndir heimamanna um að opna verslun á Húsavík, en sáu ekki grundvöll fyrir því að opna verslun enda með öfluga verslun á Akureyri. Voru þeir hins vegar ánægðir með bjartsýni og dug heimamanna með að beita sér í málinu. Svo fór að heimamenn opnuðu byggingavöruverslun sem fékk nafnið Heimamenn. Ástæða er til að þakka eigendum Heimamanna, sem eru verktakar á Húsavík, fyrir ákvörðunina um að opna verslun í kjölfar þess að Húsasmiðjan lokaði um síðustu áramót. Framsýn gerði alvarlegar athugasemdir við framkvæmd hæfismats fjármálaeftirlitsins á stjórnarmönnum lífeyrissjóða sem virðist gera allt til að útiloka almenna sjóðfélaga frá því að taka þátt í stjórnum lífeyrissjóða. Fjölmargir höfðu samband og þökkuðu Framsýn fyrir að taka málið upp til umræðu, það er, sérstaklega almennir stjórnarmenn lífeyrissjóða, lögfræðingar og atvinnurekendur. Málið var tekið upp á vettvangi Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Fjármálaeftirlitið svaraði erindi Framsýnar og bar af sér allar sakir og sögðu eingöngu um eðlileg vinnubrögð að ræða við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóða. Árið 2020 var gerður samningur við Egil Bjarnason ljósmyndara um að taka 20 myndir af erlendu fólki sem sest hefur að á félagssvæðinu við leik og störf auk þess að skrifa nokkur orð um hlutaðeigandi sem skýringu við viðkomandi mynd. Vegna heimsfaraldursins seinkaði verkinu hjá Agli, en nú eru myndirnar tilbúnar til vinnslu. Pedrómyndir á Akureyri hafa tekið að sér að framkalla myndirnar og koma þeim fyrir í römmum. Til stendur að halda ljósmyndasýningu næsta vetur og jafnvel málþing um stöðu fólks sem flutt hefur í Þingeyjarsýslurnar frá fjarlægum löndum. Ljósmyndirnar verða í eigu Framsýnar. Framsýn hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við stjórnmálamenn sem gefið hafa kost á sér til starfa á Alþingi eða í sveitarstjórnir á félagssvæðinu. Fyrir síðustu kosningar til Alþingis og sveitarstjórna voru heimsóknir stjórnmálamanna tíðar á Skrifstofu stéttarfélaganna. Forsvarsmenn Framsýnar notuðu tækifærið og komu ábendingum félagsins um það sem betur má fara á framfæri við stjórnmálamennina.
Skrifstofa stéttarfélaganna
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Hvað heimasíðuna varðar, þá var samið við hugbúnaðarfyrirtækið AP um að gera verulegar breytingar á síðunni og gera hana notendavænni fyrir félagsmenn í samráði við starfsmenn stéttarfélaganna. Samstarfið gekk afar vel og er afraksturinn eftir því. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar þrátt fyrir að það hafið dregið mikið úr þeim vegna Covid. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Frá og með áramótunum 2021/22 urðu breytingar á lögfræðiþjónustu við félagsmenn. Samið var við Lögfræðistofuna PACTA á Akureyri mun að taka yfir gjaldþrotamálin fh. Félagsmanna. PACTA hefur fram að þessu séð um alla innheimtu á útistandandi skuldum fyrirtækja við stéttarfélögin, auk þess að sjá um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál. Gjaldþrotamálin bættast nú við þessa þjónustu lögmannstofunnar. Þá var jafnframt samið við Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum um að taka að sér þau mál er varða slysa- og vinnuréttarmál félagsmanna sem fara í gegnum Framsýn. Eva Dís Pálmadóttir framkvæmdastjóri Sóknar verður jafnframt aðallögmaður stéttarfélaganna.
Framsýn, stéttarfélag
Eins og fram kemur í ársskýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi. Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að sinna því ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir. Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði, trúnaðarmönnum á vinnustöðum og ungliðastarfi í gegnum Framsýn-ung. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta. Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu öflugasta stéttarfélagi innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Til hamingju félagar og ágætu starfsmenn stéttarfélaganna, hafið kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.
Hækkanir á styrkjum úr sjúkrasjóði:
Vegna góðrar afkomu félagsins var samþykkt samhljóða að hækka eftirfarandi bótaflokka í starfsreglum sjúkrasjóðs félagsins frá og með 1. júlí 2022 fyrir félagsmenn á vinnumarkaði. Núverandi úthlutunareglur verði þær sömu en hlutfall endurgreiðslna úr sjúkrasjóði taki svohljóðandi breytingum:
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í sjúkranudd allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.500,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í meðferð hjá kírópraktorum allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.500,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í heilsunudd hjá viðurkenndum heilsunuddara allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.200,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í nálastungumeðferð hjá viðurkenndum aðilum allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.200,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða þeim sem dvelja á Heilsustofnun NLFI í Hveragerði eða sambærilegri stofnun allt að kr. 110.000,- vegna dvalar á heilsustofnunum í stað kr. 70.000,-.
- Aðstandendur félagsmanna sem eru á vinnumarki og voru fullgildir við andlát skulu eiga rétt á útfararstyrk frá sjóðnum allt að kr. 445.000,-. í stað kr. 360.000,-.
- Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 130.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 110.000,-. Með starfslokum er átt við að sjóðfélagar láti af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur í stað 67 ára aldurs eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
- Endurgreiðslur vegna krabbameinsleitar svo sem í ristli og/eða blöðruhálsi verði að hámarki kr. 40.000,- í stað kr. 30.000,-.
- Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 35.000,- í stað kr. 30.000,-.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá sálfræðingi skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per tíma.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per tíma.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá geðlækni/geðhjúkrunarfræðingi skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per skipti.
Réttindi eldri félagsmanna við starfslok:
Aðalfundurinn samþykkti samhljóða eftirfarandi starfsreglur varðandi réttindi félagsmanna við starfslok. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags sem hætta á vinnumarkaði vegna aldurs, það er eftir 60 ára aldur eða vegna örorku haldi réttindum sínum í félaginu miðað við lög og reglugerðir sjóða á hverjum tíma enda hafi þeir verið greiðendur til félagsins við starfslok. Réttur þessi hefur fram að þessu miðaðist við 67 ára aldur en lagt er til að færa hann niður í 60 ára aldur. Félagslögum Framsýnar hefur verið breytt í þessa veru. Um er að ræða verulega réttarbót fyrir viðkomandi aldurshóp. Forsendan er að viðkomandi félagsmaður hafi verið fullgildur félagsmaður í fimm ár fyrir starfslok á vinnumarkaði. Fimm samfelld ár teljast greidd þegar iðgjöldum hefur verið skilað fyrir a.m.k. 50 mánuði á fimm ára tímabili. Tekið er tillit til þess, hafi menn verið frá vinnu vegna eigin veikinda á tímabilinu umfram kjarasamningsbundinn veikindarétt.
Almenn þjónusta:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði eigi áfram rétt á almennri þjónustu hjá félaginu sem fellur undir starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða út æviskeiðið.
Réttindi úr sjúkrasjóði:
Þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að við starfslok missi menn réttindi úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða í síðasta lagi eftir 6 til 12 mánuði frá starfslokum haldi félagsmenn Framsýnar fullum réttindum í 5 ár frá starfslokum. Þannig vill félagið gera betur en almennt þekkist meðal stéttarfélaga á Íslandi. Reyndar hefur þessi regla verið opnari hjá félaginu en verður nú miðuð við 5 ár frá starfslokum. Miðað er við að viðkomandi félagsmaður hafi verið greiðandi til félagsins að lágmarki í 5 ár fyrir starfslok, ef ekki helst rétturinn áfram í 12 mánuði frá starfslokum samkvæmt gildandi reglugerð sjúkrasjóðs félagsins. Ákveðnar reglur þurfa að gilda hvað varðar útgreiðslur úr sjóðnum þar sem greiðslur inn í sjóðinn koma frá atvinnurekendum í gegnum kjarasamninga. Félagsmenn greiða ekki sjálfir framlög í sjóðinn.
Útfararstyrkur:
Aðstandendur félagsmanna sem falla frá geta sótt um útfararstyrk hafi félagsmaðurinn verið greiðandi til félagsins síðustu fimm árin fyrir fráfall. Rétturinn tekur mið af starfsreglum sjóðsins á hverjum tíma og fylgir félagsmanninum út æviskeiðið sem hlutfall af fullum útfararstyrk.
Fyrning bótaréttar úr sjúkrasjóði:
Sé styrkja úr sjúkrasjóði ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að til kostnaðar var stofnað fyrnast greiðslur úr sjóðnum.
Námsstyrkir til eldri félagsmanna:
Eldri félagsmenn halda rétti sínum til námsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hættu að vinna. Samþykkt þessi tekur mið af starfsreglum þeirra fræðslusjóða sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn í gegnum kjarasamninga.
Námsstyrkir vegna skertrar starfsorku:
Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingargjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til starfsmenntunarstyrks úr fræðslusjóði sem hann hafði áunnið sér sbr. ákvæði kjarasamninga. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.
Orlofshús og íbúðir:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði halda réttindum sínum varðandi aðgengi að orlofshúsum og íbúðum á vegum félagsins til jafns við aðra félagsmenn sem eru á vinnumarkaði á hverjum tíma út æviskeiðið. Sama á við um tjaldstæðisstyrki.
Flug og aðrir orlofskostir:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði hafa rétt til að kaupa sér flugmiða, Húsavík-Reykjavík, í gegnum félagið á sömu kjörum og fullgildir greiðandi félagsmenn á vinnumarkaði út æviskeiðið. Þá eiga þeir sömuleiðis rétt á sömu kjörum og fullgildir greiðandi félagsmenn hvað varðar aðra orlofskosti sem tilgreindir eru á orlofsvef félagsins á hverjum tíma. Það á einnig við um orlofsferðir sem félagið stendur fyrir og kaup á Veiðikortinu og Útilegukortinu á sérkjörum hjá félaginu. Þessi réttur gildir út æviskeiðið.
Lögfræðiaðstoð:
Framsýn er með samning við Pasta lögmenn um þjónustu við félagsmenn á sérstökum kjörum. Þurfi félagsmenn á lögfræðiþjónustu að halda er þeim velkomið að leita til Pacta með sín mál. Þessi réttur gildir út æviskeiðið.