Það var ekkert dónalegt að fá fulltrúa M – listans í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrr í dag. Það voru þau Áki Hauksson, Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir og Birkir Freyr Stefánsson en þau skipa þrjú efstu sætin á listanum. Miklar og góðar umræður urðu um málefni Norðurþings. Þau vilja taka á rekstri sveitarfélagsins með því að sýna ráðdeild, aga og ábyrgð í rekstri. Þá voru atvinnumál, húsnæðismál, umhverfis- og skipulagsmál til umræðu. Jafnframt var komið inn á mikilvægi þess að auka samstöðu íbúa burt séð frá búsetu í sveitarfélaginu. Kæmust þau í sveitarstjórn lögðu þau mikla áherslu á að eiga gott samstarf við Framsýn um málefni sveitarfélagsins. Formaður Framsýnar fagnaði því og tók undir mikilvægi þess að hagsmunaaðilar á svæðinu vinni betur saman að framgangi sveitarfélagsins.