Heilbrigðisstofnun Norðurlands tók nýlega ákvörðun um að bjóða út ræstingar og þrif á stofnunum HSN á Norðurlandi. Eftir því sem best er vitað bárust bara tilboð í þrif á stofnunum HSN á Húsavík og á Akureyri. Ekki reyndist vera áhugi hjá verktökum að bjóða í þrifin á Siglufirði, Blönduósi eða Sauðárkróki.
Megn óánægja er meðal starfsmanna sem sinnt hafa þessum störfum hjá HSN á Húsavík. Það er með ákvörðun stofnunarinnar að bjóða út ræstingarnar og hvernig staðið var að útboðinu. Starfsmönnum var tilkynnt formlega um þessar breytingar á fundi með yfirmönnum stofnunarinnar fyrir síðustu mánaðamót um leið og þeim voru afhent uppsagnarbréfin. Flestir þeirra starfsmanna sem eiga í hlut eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Formaður Framsýnar var boðaður á fundinn sem stjórnendur HSN héldu með starfsmönnum, ekki síst þar sem starfsmenn lögðu mikla áherslu á að hann kæmi á fundinn þeim til stuðnings. Á fundinum gerði hann alvarlegar athugasemdir við uppsagnirnar og hvernig staðið var að þeim. Skoraði hann á HSN að draga þær þegar í stað til baka. Stjórnendur HSN höfnuðu því, sögðu þetta gert til að hagræða í rekstri stofnunnarinnar vegna rekstrarvanda. Vegna stöðunnar yrðu stjórnendur að taka til í rekstrinum. Formaður sagðist gefa lítið fyrir það, þar sem ráðist væri að konum í láglaunastörfum, konum sem væru á lélegustu kjörunum hjá HSN. Þangað væri ekkert að sækja til að laga fjárgagslega stöðu HSN.
Ljóst er að ákvörðun stjórnenda HSN að úthýsa ræstingunum til verktaka hafa eðlilega vakið athygli. Skrifstofu stéttarfélaganna hafa borist fyrirspurnir frá þingmönnum kjördæmisins vegna málsins og sömuleiðis frá sveitarstjórnarmönnum í Norðurþingi, nú síðast um helgina. Að sjálfsögðu gagnrýna menn svona vinnubrögð. Framsýn mun í dag óska eftir frekari upplýsingum frá HSN varðandi það hvernig stofnunin ætli að bregðast við rekstrarvanda stofnunnarinnar. Verður það bara gert með því að ráðast að þeim lægst launuðu hjá stofnuninni eða eru frekari aðgerðir fyrirhugaðar til að takast á við fjárhaglegan vanda HSN.