Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti ávarp á hátíðarhöldunum á Húsavík í gær:
Ágætu félagar
Fyrir hönd stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum býð ykkur öll hjartanlega velkomin á þessa hátíðadagskrá stéttarfélaganna. Síðustu tvö árin hafa verið afar óvenjuleg og fólk um víða veröld upplifað ákaflega sérstakar aðstæður. Áhrif kórónuveirufaraldursins hafa alls staðar verið merkjanleg, hvort heldur er í daglegu athöfnum fólks, heimilislífi, félagslífi eða atvinnulífi. Af þessum sökum hefur ekki verið hægt að koma saman með venjubundnum hætti á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins eins og víða hefur verið venja til. En hér erum við í dag og það er ákaflega gleðilegt að sjá ykkur öll hér samankomin og veiruskrattinn vonandi horfinn veg allrar veraldar.
Upphaf baráttudags verkalýðsins er rakið til þings Alþjóðasamtaka Sósíalista í París 1889, sem haldin var í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá frönsku byltingunni. Þar var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og lagt til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda, til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum.
Á þinginu í París var fræi var sáð og smátt og smátt fór verkafólk um allan heim að leggja niður vinnu þennan dag eða hluta hans. Það var þó ekki í sérstakri þökk atvinnurekenda til að byrja með og töldu sumir hverjir uppátækið ala á heimtufrekju vinnuhjúa. Á endanum var þó látið undan kröfum verkalýðsins að viðurkenna þennan dag sem opinberan og lögbundin frídag. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á 1. maí gengin árið 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966.
Baráttudagurinn okkar 1. maí gegnir enn veigamiklu hlutverki og við skulum ekki gleyma því að hann er þannig tilkominn að bláfátækt verkafólk lagði niður vinnu þennan dag. Það gerði það ekki til að slaka á og „tjilla“, heldur að krefjast styttri vinnudags og betri kjara.
Vissulega er vel við hæfi að halda hátíð þennan dag og ástæða til að minnast margra og mikilvægra sigra í baráttunni fyrir betri kjörum. Það hefur kostað fórnir að bæta kjörin og tryggja afkomu fólks, en við megum aldrei sofna á verðinum því þá mun allt sem hefur áunnist hefur verða af okkur tekið.
Á degi sem þessum er jafnframt mikilvægt að hvetja félagsmenn stéttarfélaga til að vera virkir í sínum verkalýðsfélögum, því styrkurinn til frekari sigra í réttindabaráttu verkafólks fellst í samstöðu okkar allra. Við búum við svo vel að eiga öflug stéttarfélög hérí Þingeyjarsýslum sem kappkosta að veita félagsmönnum góða þjónustu, auk þess að standa vörð um kjör og réttindi þeirra á vinnumarkaði.
Kæru gestir
Hér á eftir munu Þingeyskir listamenn koma fram og skemmta okkur auk þess sem formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, mun flytja hátíðarræðu dagsins. Stéttarfélögunum bárust óskir um að hátíðinni yrði streymt og við þeirri ósk verður orðið. Hátíðin verður auk þess aðgengileg á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is næstu tvær vikurnar. Með þessum orðum set ég hátíðarhöldin 1. maí. Góða skemmtun.
Takk fyrir.