Sumarferð stéttarfélaganna í ár verður farin um miðjan ágúst. Að þessu sinni verður boðið upp á göngu- og sögu ferð í Bárðardal. Farið verður með rútu frá Húsavík og er um að ræða ferð að Skjálfandafljóti undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur. Gengið verður frá bílastæði skammt innan við Stórutungu og þaðan rölt eftir þægilegri slóð út í Aldey, eftir henni upp að Aldeyjarfossi og Ingvararfossum. Farið til baka merkta leið sem liggur eftir gömlum, vel grónum farvegi fljótsins og er einstaklega falleg. Sannkölluð ævintýraferð um sérstæða náttúruperlu, þar sem farið verður til að njóta. Að venju verður grillað í lok ferðar. Um er að ræða fremur auðvelda gönguleið sem ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið verður kr. 5000,- fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin verður nánar auglýst síðar.