Elva sjálfkjörin formaður DVS innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags var haldinn síðasta fimmtudag, það er 10. febrúar. Fundurinn fór vel fram og var mjög líflegur og skemmtilegur. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru kjaramál til umræðu en mótun kröfugerðar á vegum deildarinnar er hafin. Þá voru gerðar smávægilegar breytingar á starfsreglum deildarinnar. Stjórn deildarinnar var sjálfkjörin. Formaður er kjörinn til tveggja ára, aðrir stjórnarmenn til eins árs.

Elva Héðinsdóttir                         formaður (2022-2024)

Trausti Aðalsteinsson                    varaformaður

Karl Hreiðarsson                          ritari

Anna Brynjarsdóttir                     meðstjórnandi

Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir    meðstjórnandi

Hér má lesa yfirferð formanns, Elvu Héðins sem starfar hjá PWC á Húsavík, sem fór yfir helstu málefni deildarinnar á síðustu tveimur starfsárum en aðalfundinum sem vera átti í fyrra var frestað vegna Covid:

„Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins. Því miður tókst okkur ekki að halda aðalfund deildarinnar vegna ársins 2020 sem tengist Covid. Þess í stað er þessum aðalfundi ætlað að gera upp tvö síðustu ár í starfsemi deildarinnar. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar ákvað í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu að fella niður aðalfundinn vegna ársins 2020.  Samkvæmt starfsreglum sjóðsins ber að halda aðalfund deildarinnar fyrir 1. febrúar ár hvert. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnum tveimur árum 2020 til 2021, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma. Áður en lengra er haldið ber að geta þess að umliðið starfsár litaðist verulega af heimsfaraldrinum COVID-19 líkt og árið 2020.

Fjöldi félagsmanna:

Varðandi fjölda félagsmanna þá voru rúmlega 300 einstaklingar sem greiddu til deildarinnar á árinu 2021. Svipaður fjöldi félagsmanna hefur verið að greiða til deildarinnar á umliðnum árum en þeim hefur þó farið fjölgandi.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar um 350.

Kjaramál:

Þann 1. nóvember nk. renna  kjarasamningar verslunar- og skrifstofufólks út. Landssambandið (LÍV) hefur lagt fram áætlun varðandi undirbúning að mótun kröfugerðar. Í skýrslunni  er að finna tillögu LÍV að áætlun við mótun kröfugerðar, sem samþykkt var á formannafundi þann 30. nóvember sl.

Tillaga LÍV að áætlun við mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga:

  • Desember 2021 – apríl 2022: Hvert félag vinnur að mótun á sínum kröfum fyrir næstu kjarasamninga.
  • 24. – 25. mars 2022: Þing LÍV, þar sem rætt verður um kröfur fyrir næstu kjarasamninga.
  • 13. maí 2022: Félög senda LÍV hugmyndir að kröfum inn í kröfugerð og félög sem vilja senda inn umboð LÍV til samningagerðar senda það inn.
  • 24. maí 2022: Formannafundur, þar sem farið verður yfir kröfur aðildarfélaga og tekin ákvörðun um mögulega sameiginlega kröfugerð.
  • 27. maí 2022: Kröfugerð lögð fram gagnvart viðsemjendum og samningaviðræður hefjast.
  • 1. júní 2022: Viðræðuáætlun send til ríkissáttasemjara

Við höfum því verk að vinna við að móta kröfugerð fyrir okkar félagsmenn. Hvað það varðar munum við með auglýsingum/tilkynningum til okkar félagsmanna hvetja þá til að koma sínum skoðunum á framfæri við stjórn deildarinnar. Þá kemur til greina að boða til félagsfundar um  kjaramál verði það talið þorandi vegna Covid. Þegar kröfugerð félagsmanna liggur fyrir verður henni komið á framfæri við LÍV samkvæmt verkáætlun sambandsins.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð starfsárin 2020-2021: Elva Héðinsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem ritari sem fundar reglulega. Þá á formaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Formaður hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins.

Þing LÍV:

32. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var haldið í fjarfundi þann 14. október 2021 frá kl. 09:00-12:00. Þetta var í fyrsta sinn sem LÍV þing fór fram í fjarfundi en stjórn LÍV tók ákvörðun um að þingið yrði haldið með rafrænum hætti vegna Covid-19. Alls voru 84 fulltrúar boðaðir á þingið. Aðeins fastir dagskrárliðir þingsins voru teknir fyrir s.s. skýrsla stjórnar og starfsmenntasjóða, samþykkt ársreikninga LÍV og starfsmenntasjóða 2019 og 2020, ákvörðun um skatt til ASÍ og fleira. Þá var einnig ný stjórn LÍV kjörin. Ragnar Þór Ingólfsson var endurkjörinn formaður LÍV.  Elva Héðinsdóttir hlaut kosningu í varastjórn sambandsins 2021-2023 og Jónína Hermannsdóttir í kjörnefnd 2021-2023. Elva hefur þegar tekið þátt í störfum LÍV sem stjórnarmaður en hún var boðuð á stjórnarfund í desember.

Fræðslumál:

Fálagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóði, Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Um 60 styrkir hafa verið veittir úr sjóðnum á síðustu tveimur árum sem skiptast þannig milli ára:

Árið 2020 fengu 33 félagsmenn greiddar 2.027.445,- í fræðslustyrki.

Árið 2021 fengu 28 félagsmenn greiddar 1.841.357,- í fræðslustyrki.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árunum 2020-2021, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað það varðar er um þessar mundir unnið að því að uppfæra heimasíðu stéttarfélaganna og nútímavæða hana. Samið var við fyrirtækið Dorado um að koma að þeirri vinnu. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar félagsmönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum þrátt fyrir Covid.“

Önnur umræða á fundinum:

Undir liðnum um kjaramál kom fram að almenn ánægja er Lífskjarasamninginn. Núverandi kjarasamningur rennur út 1. nóvember 2022. Fundarmenn voru á því að Lífskjarasamningurinn hefði almennt komið vel út fyrir félagsmenn, áfram ætti að stefna að krónutöluhækkunum í stað %hækkana. Þá voru önnur atriði nefnd svo sem jöfnun á orlofsrétti milli starfsgreina á vinnumarkaði, stytting vinnuvikunnar, réttindi vegna fráfalls/veikinda maka yrðu aukin og þá væri mikilvægt að tekið yrði á þeim mikla halla í útgjöldum sem væri á íbúum landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðisins hins vegar varðandi það að sækja sér heilbrigðisþjónustu og menntun og reyndar aðra þjónustu. Gríðarlegur kostnaður væri fólgin í því fyrir íbúa landsbyggðarinnar að sækja þessa þjónustu sem væri að mestu í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta væru líka kjaramál. Fleiri mál voru nefnd sem vert væri að skoða betur varðandi kjör og réttindi félagsmanna. Stjórn deildarinnar mun koma þessum skoðunum á framfæri við LÍV sem kemur væntanlega til með að fara með samningsumboð deildarinnar.

Deila á