Framsýn stéttarfélag hefur fengið mikla hvatningu úr samfélaginu um að berjast gegn því að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Það er ekki síst frá verktökum, sveitarstjórnarfólki og íbúum á svæðinu. Hvað það varðar hefur Framsýn fundað með talsmönnum Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins sem eðlilega hafa miklar áhyggjur af lokuninni.
Því miður hefur Húsasmiðjan ekki fallist á að endurskoða fyrri ákvörðun um að loka á gamlársdag. Þeir hafa hins vegar opnað á að vera með söluskrifstofu á Húsavík eftir áramótin.
Í ljósi þess að Húsasmiðjan stefnir að því að loka verslun fyrirtækisins um næstu áramót hafa heimaaðilar, þar á meðal Framsýn, sett sig í samband við aðra aðila sem eru stórir á þessum markaði á Íslandi með það að markmiði að kanna hvort til greina komi að þeir setji upp byggingavöruverslun á Húsavík. Fyrir síðustu helgi var fundað með stjórnendum BYKÓ sem hafa tekið heimamönnum mjög vel enda alvöru fyrirtæki. Þeir eru með málið til skoðunar. Fram hefur komið að þeir eru afar ánægðir með þá miklu hvatningu sem þeir hafa fengið frá heimamönnum um að opna verslun á Húsavík komi til þess að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um áramótin sem flesti bendir til, því miður.