Starfsgreinasamband Íslands hefur þegar ákveðið að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Hvað það varðar hafa verið skipaðir tveir starfshópar innan sambandsins til að yfirfara bókanir/yfirlýsingar í kjarasamningum og gildi þeirra. Um er að ræða bókanir sem varða tvo kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, það er á almenna vinnumarkaðinum annars vegar og í ferðaþjónustunni hins vegar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar leiðir þann hóp sem á að fara yfir Ferðaþjónustusamninginn og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða fer fyrir þeim hópi sem á að yfirfara Almenna samninginn. Starfshóparnir munu hefja vinnu á næstu dögum. Í kjölfarið er síðan ráðgert að funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í desember um bókanirnar og hvernig þeim verður fylgt eftir.