Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar á þriðjudaginn. Miklar umræður urðu um ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og samfélagsins í Þingeyjarsýslum með ákvörðun fyrirtækisins. Auk þess mun lokunin hafa áhrif á aðra verslun og þjónustu á svæðinu þar sem Húsasmiðjan hefur dregið að sér viðskiptavini úr nágrenninu sem um leið hefur nýtt sér aðra þjónustu á Húsavík. Ekki er annað vitað en að verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík hafi gengið vel enda hefur mikið verið um framkvæmdir á stór Húsavíkursvæðinu á undanförnum árum og eru frekari framkvæmdir fyrirhugaðar á næstu árum sem kallar á öfluga byggingavöruverslun á svæðinu. Þess vegna ekki síst kemur ákvörðun Húsasmiðjunnar verulega á óvart. Vitað er að Húsasmiðjan hefur lagt í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir á Akureyri við byggingu á nýju verslunarhúsnæði um leið og verslunum fyrirtækisins á Húsavík og Dalvík verður lokað. Á fundi Framsýnar í vikunni kom skýrt fram að starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík væru til fyrirmyndar, en stæðu nú frammi fyrir því að verða hugsanlega atvinnulausir um áramótin sem væri miður. Einnig kom fram að formaður Framsýnar hefur fundað með starfsmönnum og boðið fram aðstoð félagsins sem þeir hafa tekið vel.
Forsvarsmenn Framsýnar hafa undanfarið fundað með stjórnendum Húsasmiðjunnar og komið á framfæri óánægju með lokuninna um leið og fyrirtækið hefur verið hvatt til að endurskoða ákvörðuninna. Fyrirtækið hefur ekki orðið við ósk félagsins.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti því samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
Ályktun
-Lokun Húsasmiðjunnar hörmuð-
„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags harmar þá ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót.
Forsvarsmenn Framsýnar hafa í samtölum við stjórnendur Húsasmiðjunnar ítrekað mikilvægi þess að fyrirtækið haldi starfseminni áfram á Húsavík, ekki síst þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram á komandi árum.
Vissulega er eðlilegt að menn endurskoði rekstrarforsendur á hverjum tíma og bregðist við því með viðeigandi hætti s.s. með breyttu fyrirkomulagi á verslun og þjónustu. En að loka versluninni er reiðarslag þar sem vitað er að góður rekstrargrundvöllur er fyrir því að reka byggingavöruverslun á stað eins og Húsavík sem þjóni verktökum og öðrum viðskiptavinum í Þingeyjarsýslum.
Á sama tíma og Húsasmiðjan boðar lokanir á verslunum sínum á Dalvík og Húsavík fjárfestir fyrirtækið í dýru verslunarhúsnæði á Akureyri. Með lokun minni verslananna hyggst fyrirtækið ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðisins.
Full ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðri þróun verslunar í dreifbýlinu sem í auknum mæli hefur verið að flytjast til stærri þéttbýliskjarna með tilheyrandi viðbótar kostnaði fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Við þessari þróun þarf að bregðast þegar í stað enda brýnt byggðamál.“