Þing BSRB, það 46. í röðinni, fer fram eftir tvær vikur. Síðasta þing sambandsins var haldið haustið 2018. Upphaflega stóð til að halda þriggja daga þing með hefðbundnum hætti en vegna óvissu tengdri sóttvarnaraðgerðum ákvað stjórn BSRB að halda rafrænt þing miðvikudaginn 29. september næstkomandi um afmörkuð mál og boða til framhaldsþings á næsta ári.
Þing bandalagsins eru haldin þriðja hvert ár og fara þau með æðsta vald í öllum málum BSRB. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. Að þessu sinni verður dagskráin afmörkuð og allri stefnumótun frestað til framhaldsþings.
Á dagskrá þingsins 29. september verður skýrsla stjórnar, takmarkaðar lagabreytingar og kosningar í embætti. Kosið verður um embætti formanns og 1. og 2. varaformanns. Þá verða kjörnir aðalmenn og varamenn í stjórn bandalagsins.
Þingfulltrúar fá sendar upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast gögn og taka þátt í þinginu með rafrænum hætti frá sínum stéttarfélögum. Starfsmannafélag Húsavíkur á rétt á tveimur fulltrúum á þinginu. Fulltrúar félagsins verða Hermína Hreiðarsdóttir og Fanney Hreinsdóttir.