Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur fór fram síðasta mánudag, 6. september. Fundurinn var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26.
Hermína Hreiðarsdóttir var kjörin formaður félagsins og er hún boðin velkomin til starfa. Hermína starfar á skrifstofu Norðurþings sem þjónustu- og skjalafulltrúi. Aðrir í stjórn eru; Bergljót Friðbjarnardóttir, Fanney Hreinsdóttir, Berglind Erlingsdóttir og Sylvía Ægisdóttir.
Hér má lesa frekar um fundinn og samþykktir fundarins.
Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning félagslegra endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd
2. Önnur mál
Niðurstöður fundarins:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
Bergljót Friðbjarnardóttir sitjandi formaður félagsins gerði grein fyrir skýrslu stjórnar.
Fundir
Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 27. ágúst 2020. Frá þeim tíma hafa verið haldnir þrír formlegir stjórnarfundir. Starfsemin hefði mátt vera miklu öflugri en formaður félagsins sagði sig frá störfum fyrir félagið 22. júní 2021 og urðu því aðrir stjórnarmenn að taka að sér að leiða félagið í gegnum starfsárið með góðum stuðningi frá starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna sem tóku auk þess að sér að skipuleggja aðalfundinn. Ákveðið var að Bergljót Friðbjarnardóttir yrði í forsvari fyrir félagið fram að aðalfundinum í forföllum formanns.
Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Stafsmannafélagi Húsavíkur þann 31. desember 2020 voru 120, það er greiðandi félagar. Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2021 skv. félagatali í DK voru 82. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB.
Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 14.979.546, en voru kr. 16.440.832 árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 11.566.093, og hækkuðu því milli ára úr kr. 10.720.399.
Fjármunatekjur voru kr. 192.125 samanborið við kr. 774.831 árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 3.605.578, samanborið við 6.495.264 tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 71.420.810,- og eigið fé nam kr. 68.754.171 og hefur það aukist um 5,5% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.684.028. Gerð verður frekari grein fyrir helstu niðurstöðum úr ársreikningi félagsins undir b-lið þessa liðar, Venjuleg aðalfundarstörf.
Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Komið er því að laga íbúðina sem bíður komandi stjórnar félagsins að framfylgja. Þá á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum. Þá fengu 7 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 170.200,-.
Fræðslumál og heilsurækt
Á síðasta ári fengu 24 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 1.859.067,-. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 178.000,- í heilsustyrki frá félaginu.
Kjaramál
Lítið fór fyrir kjarasamningsgerð á síðasta starfsári enda kjarasamningar ekki lausir fyrr en á árinu 2023. Hins vegar hefur töluverður tími farið í aðstoð við félagsmenn vegna innleiðingar á vinnutímastyttingum og eftirfylgni með félagsmannasjóðnum Kötlu. Það er að tryggja að greiðslur úr sjóðnum skiluðu sér til félagsmanna.
Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum enda Covid ekki haft veruleg áhrif á starfsmenn sveitarfélaga og ríkisins.
Hátíðarhöldin 1. maí
Í annað skiptið síðan 1923 hafði íslenskt launafólk ekki tækifæri á að safnast saman 1. maí 2021 til að leggja áherslur á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Árið 1923 fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Eðlilega urðu stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum að fella niður hefðbundna dagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík í ár. Hátíðarhöldin voru því með óhefðbundnu sniði vegna þessara sérstöku aðstæðna. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna slógust í hóp heildarsamtaka launafólks sem voru með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu 1. maí. Að dagskránni stóðu: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.
Starfsemi félagsins
STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:
Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.
Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningu á vegum Leikfélags Húsavíkur.
Dagana 19. og 20. apríl stóðu stéttarfélögin fyrir langþráðu trúnaðarmannanámskeiði, en námskeiðinu hefur ítrekað verið frestað sökum heimsfaraldursins. Alls tóku 19 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu frá Framsýn, STH og Þingiðn. MFA sá um námskeiðið fh. stéttarfélaganna.
Gerðar voru breytingar á réttindaákvæðum Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar sem félagið kom að.
Til stóð að ráðast í endurskoðun á lögum félagsins en þar sem félagið hefur ekki starfað af fullum þunga á starfsárinu tókst ekki að hefja þá vinnu. Vonandi verður hægt að ráðast í þessa vinnu í vetur.
Félagið kom að því að styrkja Soroptimistaklubb Húsavíkur um kr. 100.000 vegna sjálfstyrkingarnámskeiðs fyrir ungar konur.
Samkomulag við Flugfélagið Erni
Í desember 2019 endurnýjuðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn sína þegar horft er til þess að stéttarfélögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan þau hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið í árslok 2019 hafa stéttarfélögin tryggt félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2021. Verð til félagsmanna hefur verið kr. 10.300,- per flugmiða/kóða.
Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.
Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur annast þá þjónustu. Hann er ávallt reiðubúinn til að veita félagsmönnum nánari upplýsingar um starfsemina en markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu.
Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. STH er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Framsýn og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Huld Aðalbjarnardóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum á síðasta ári og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu félaganna. Í hennar stað var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin sem fjármálastjóri. Þá hætti Aðalsteinn J. Halldórsson störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta ár. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmenn við stjórnir félaganna, starfsmenn og félagið í heild sinni. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Tekin var ákvörðun um að hafa hana opna þrátt fyrir Covid en gæta um leið að öllum sóttvarnarreglum heilbrigðisyfirvalda. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Félögin fjárfestu saman í nýlegri bifreið Toyota Rav4 árgerð 2015 sem kom í staðinn fyrir bifreið sem var seld. Bifreiðin kemur að góðum notum í starfsemi stéttarfélaganna. Kaupverðið er kr. 2.850.000,- sem skiptist þannig milli félaganna, Framsýn 75,5%, Þingiðn 14,5% og STH 10%. Um er að ræða sama eignarhluta og er á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, neðri hæð.
Fulltrúaráð stéttarfélaganna
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna mynda með sér Fulltrúaráð sem skipað er formönnum þessara félaga. Fulltrúaráðinu er ætlað að fylgjast með sameiginlegri starfsemi félaganna, ekki síst sem viðkemur rekstri skrifstofunnar. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar eftir þörfum.
Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
Elísabet Gunnarsdóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi. Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 14.979.546, en voru kr. 16.440.832 árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 11.566.093, og hækkuðu því milli ára úr kr. 10.720.399.
Fjármunatekjur voru kr. 192.125 samanborið við kr. 774.831 árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 3.605.578, samanborið við 6.495.264 tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 71.420.810,- og eigið fé nam kr. 68.754.171 og hefur það aukist um 5,5% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.684.028.
Eftir yfirverð Bergljótar og Elísabetar um starfsemi og rekstur félagsins gaf fundarstjóri orðið laust. Umræður urðu um starfsemi félagsins. Eftir umræður var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða.
Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2021 var samþykkt samhljóða.
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt samhljóða.
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
Tillaga um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum var samþykkt samhljóða.
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
Þar sem ekki lágu fyrir fundinum breytingar á lögum félagsins var þessi liður ekki til afgreiðslu. Hins vegar liggur fyrir að ráðast þarf í verulegar breytingar á lögum félagsins. Ný stjórn mun taka málið upp í vetur.
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
Fyrir liggur að kjósa þarf formann, ritara og einn meðstjórnanda. Bergljót Friðbjarnardóttir gefur áfram kost á sér sem ritari og Berglind Erlingsdóttir gefur áfram kost á sér sem meðstjórnandi. Þá hefur Hermína Hreiðarsdóttir ákveðið að gefa kost á sér sem formaður félagsins. Ekki komu fram aðrar tillögur og skoðast þær því sjálfkjörnar í stjórn. Fundarstjóri óskaði þeim til hamingju, sérstaklega nýjum formanni félagsins, Hermínu Hreiðars.
f) Kosning félagslegra endurskoðenda samkvæmt 6. grein
Ása Gísladóttir og Guðmundur Guðjónsson voru kjörin sem félagslegir skoðunarmenn reikninga vegna ársins 2021.
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
46. þing BSRB fer fram í Reykjavík dagana 29. september og 1. október á Hilton Reykjavík Nordica. STH á rétt á tveimur þingfulltrúum. Samþykkt var að Hermína Hreiðarsdóttir og Fanney Hreinsdóttir verði fulltrúar félagsins á þinginu.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd
Samþykkt var að eftirtaldir verði í orlofsnefnd félagsins: Sveinn Hreinsson, Karl Halldórsson og Arna Þórarinsdóttir.
Samþykkt var að eftirtaldir verði í ferðamálnefnd félagsins: Fanney Hreinsdóttir, Arna Þórarinsdóttir og Helga Þuríður Árnadóttir.
Samþykkt var að eftirtaldir verði í stjórn Starfsmenntasjóðs félagsins en Norðurþing skipar jafnframt fulltrúa í stjórn: Frá STH komi Hermína Hreiðarsdóttir og Bergljót Friðbjarnardóttir.
2. Önnur mál
a) Þóknun vegna starfa fyrir félagið
Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögur um laun aðalstjórnar, annarra stjórna, nefnda og ráða á vegum félagsins sem eftir umræður voru samþykktar samhljóða:
Laun stjórnar og varastjórnar
Tillaga er um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda.
Laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi
Tillaga er um að laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir per setinn fund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi.
b) Kveðjugjöf til fráfarandi stjórnarmanna
Samþykkt var að færa þeim stjórnarmönnum sem hættu störfum fyrir félagið á síðasta aðalfundi smá gjöf frá félaginu sem þakklætisvott fyrir góð störf í þágu félagsins. Bergljót Friðbjarnardóttir tók að sér að koma gjöfunum til hlutaðeigandi.
Hermína Hreiðars er nýr formaður STH Kristbjörn lætur sig ekki vanta á fundi í STH