Í bréfi Framsýnar til Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, kemur fram að allt frá því að sveitarstjórnarmenn á starfssvæði Eyþings settu fram fyrstu hugmyndir um sameiningu Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hafði Framsýn áhyggjur af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.
Fram að þeim tíma hafði Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið öflugur málsvari sveitarfélaga og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum enda stjórn félagsins skipuð fulltrúum frá hagsmunaaðilum á svæðinu. Samstarf aðila hafði í gegnum tíðina verið til mikillar fyrirmyndar og AÞ komið að margvíslegum verkefnum til að efla atvinnusvæðið og um leið búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum.
Því miður fyrir samfélagið hér austan Vaðlaheiðar bar sveitarstjórnarmönnum ekki gæfa til að standa í lappirnar og efla samstarfið á héraðsvísu enn frekar með því að halda í Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Ákveðið var að stíga það skref að sameina atvinnuþróunarfélögin og Eyþing, skammstafað SSNE. Í aðdragandanum að sameiningunni var því haldið fram af forsvarsmönnum sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum að höfuðstöðvar hins nýja félags yrðu á Húsavík og haldið yrði úti öflugri starfsemi er tengdist atvinnu- og byggðaþróun í Þingeyjarsýslum.
Vorið 2020 auglýsti SSNE eftir sviðstjóra atvinnu- og byggðarþróunar, með aðsetur á Húsavík. Ráðið var í starfið, en samkvæmt heimildum Framsýnar hefur sviðstjórinn sagt upp störfum og ekki standi til að ráða annan mann í hans stað á Húsavík. Er það algjörlega á skjön við allar ræðurnar sem blessaðir sveitarstjórnarmennirnir sem mæltu fyrir sameiningunni, töluðu fyrir. Menn þyrftu ekki að óttast neitt, það stæði til að efla starfsemina á svæðinu og halda störfum í héraði.
Í ljósi þessa er spurt:
1. Er það rétt að sviðstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE með aðsetur á Húsavík hafi sagt upp störfum?
2. Er það rétt að ekki verði ráðið í hans starf á Húsavík með sérstaka áherslu á atvinnu- og byggðaþróun? Ef svo er, hvað verður um þetta mikilvæga starf?
3. Athygli vekur að nýlega auglýsti SSNE eftir öflugum verkefnastjóra fjármála og reksturs hjá SSNE. Hlutverk hans er einnig að sinna atvinnuráðgjöf og nýsköpun. Tekið er fram í auglýsingu að umrætt starf sé á Akureyri. Kom ekki til greina að þetta starf yrði á Húsavík, það er í höfuðstöðvunum? SSNE hefur talað fyrir störfum án staðsetningar líkt og er með núverandi starf framkvæmdastjóra SSNE. Hvenær á það við?
4. Þegar framkvæmdastjóri SSNE var ráðinn til starfa kom fram að ekki yrði gerð krafa um staðsetningu starfsins, þess í stað væri framkvæmdastjóranum ætlað að vera til skiptist á skrifstofum samtakanna á starfssvæðinu. Hefur það gengið eftir samkvæmt áætlun?
5. Hversu mörg stöðugildi eru hjá SSNE í höfuðstöðvunum á Húsavík? Hefur þeim fjölgað eða fækkað frá stofnun SSNE? Hverjar eru framtíðarhorfurnar varðandi mannahald og stöðuhlutföll?
Að öðru:
Á heimasíðu SSNE má sjá að samtökin hafa lagt áherslu á að Akureyrarflugvöllur komist betur inn á kortið sem millilandaflugvöllur. Beint millilandflug um Akureyrarflugvöll hafi um langt skeið verið baráttumál. Að sjálfsögðu eiga menn að setja sér markmið og berjast fyrir þeim. Hvað það varðar hefur Framsýn barist fyrir því að áætlunarflug haldist áfram milli Húsavíkur og Reykjavíkur enda mikið byggða- og atvinnumál. Í því sambandi hefur félagið verið í sambandi við forsætisráðherra, samgöngumálaráðherra, fjármálaráðherra, þingmenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi, ferðaþjónustuaðila í Þingeyjarsýslum og forstjóra Samkeppniseftirlitsins, þar sem stefnir í einokun í innanlandsfluginu sem Framsýn hefur varað við.
Til viðbótar skrifaði Framsýn Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra bréf þar sem óskað var eftir aðkomu samtakanna að þessu mikilvæga máli fyrir Þingeyinga og alla þá sem ferðast þurfa um Húsavíkurflugvöll. Við því bréfi hefur ekkert svar borist ! Vissulega eru það mikil vonbrigði að SSNE hafi ekki séð ástæðu til að lyfta upp litla fingri til að koma að þessu mikilvæga máli með heimamönnum. Að mati Framsýnar þarf að tryggja millilandaflug inn á svæðið auk þess að tryggja eðlilegar flugsamgöngur milli landshluta á Íslandi. Fyrir þessu eiga SSNE að berjast sem og aðrir hagsmunaaðilar. Áhugaleysi SSNE verður ekki túlkað öðruvísi en að samtökin sjái ekki ástæðu til að koma að málinu, sem eru skýr skilaboð til heimamanna um áherslur SSNE í atvinnu- og byggðamálum í Þingeyjarsýslum.
Þess er vænst að þessu bréfi verði svarað en ekki komið fyrir í möppu líkt og fyrra bréfi félagsins varðandi aðkomu SSNE að áætlunarflugi um Húsavíkurflugvöll sem ekki hefur verið svarað. Það er jú hlutverk SSNE að efla Norðurland eystra sem eftirsótt svæði til búsetu og atvinnu auk þess að vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga og atvinnulífs í sameiginlegum málum, svo vitnað sé í samþykktir samtakanna.