Stjórn Framsýnar kom saman til fundar fyrir helgina til að taka fyrir þau málefni sem lágu fyrir fundinum. Venja er fyrir því að boða varamenn auk stjórnarmanna á stjórnarfundina sem og stjórn Framsýnar-ung. Þannig er á hverjum tíma tryggt gott lýðræði í félaginu, það er að fleiri en færri komi að því að taka ákvarðanir sem varða starfsemi félagsins á hverjum tíma. Undanfarna mánuði hafa fundirnir farið fram í gegnum netið en stjórnin fundar að meðatali einu sinni í mánuði. Að þessu sinni var ákveðið að hafa snertifund og gæta að öllum sóttvarnarreglum enda fundarmenn innan við tuttugu manns. Menn voru almennt ánægðir með að geta hist á ný og rætt málin yfir borðið. Reyndar komust ekki allir á fundinn vegna veðurs, þess í stað voru þeir í símasambandi.
Á fundinum voru mörg mál á dagskrá s.s. aðalfundur sjómannadeildar félagsins, fjármál félagsins, skuldir fyrirtækja vegna launatengdra gjalda til félagsins, stofnanasamningar við ríkisstofnanir, vinnutímastyttingar hjá stofnunum ríkis- og sveitarfélaga, kjörgengi félagsmanna, orlofskostir félagsmanna sumarið 2021, væntanlegt trúnaðarmannanámskeið, viðgerðir á íbúðum félagsins í Þorrasölum í Kópavogi, álag á Skrifstofu stéttarfélaganna, samstarf við Verkalýðsfélag Þórshafnar, atvinnuleysi á félagssvæðinu, félagsmannasjóður, samstaf fræðslusjóða, 110 ára afmæli félagsins og hugsanleg kaup á orlofsíbúð.