Samningslausir sjómenn á aðalfundi

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn síðasta föstudag. Til stóð að halda hann í desember en vegna COVID og fjöldatakmarkana varð að fresta fundinum fram í janúar þegar heimilt var að halda „snertifundi“ fyrir allt að tuttugu fundargesti.  Fundurinn fór vel fram og urðu að venju líflegar umræður um málefni sjómanna og stöðuna í kjaraviðræðunum við útgerðarmenn SFS. Engin gleði er innan sjómanna með það mikla virðingarleysi sem SFS sýnir samtökum sjómanna með því að ganga ekki frá nýjum kjarasamningi við sjómenn sem hafa verið samningslausir á annað ár. Stjórn deildarinnar var endurkjörin með einni undantekningu, Aðalgeir Sigurgeirsson gekk úr stjórn og í hans stað var Héðinn Jónasson kjörin í stjórn.  Stjórnina skipa eftirtaldir:

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar starfsárið  2021:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Börkur Kjartansson varaformaður
Gunnar Sævarsson ritari
Aðalsteinn Steinþórsson meðstjórnandi
Héðinn Jónasson meðstjórnandi

Meðfylgjandi er ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2021. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2020, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma.  Áður en lengra er haldið ber að geta þess að umliðið starfsár litaðist verulega af heimsfaraldrinum COVID-19.

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um síðustu áramót með gjaldfrjálsum sjómönnum var um 100 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum taka mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs.

Kjaramál:
Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir á annað ár. Því miður er staðan óbreytt, sjómenn eru samningslausir þar sem SFS hefur dregið lappirnar með því að ganga ekki að sanngjörnum kröfum sjómanna. Viðræður við útgerðarmenn hafa vægast sagt gengið mjög illa og því lítið að frétta. Allar tillögur frá samtökum sjómanna til SFS varðandi það að liðka til í samningamálum hafa verið slegnar út af borðinu nánast án þess að þær væru skoðaðar frekar. Vegna heimsfaraldursins COVID-19 og ástandsins í þjóðfélaginu reyndi Sjómannasambandið að koma með mjög hógværar enn sanngjarnar kröfur svo hægt yrði að ganga frá nýjum kjarasamningi. Í því sambandi var helstu ágreiningsmálum lagt til hliðar til að liðka fyrir gerð kjarasamnings til tveggja ára, því var hafnað af hálfu SFS. Hvað kjarasamningsgerðina varðar skulum við hafa í huga að háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður á sínum tíma þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, s.s. athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum sem og um skiptimannakerfið. Þessari vinnu er langt frá því að vera lokið. Staðan í dag er sú, að aðeins ein bókun hefur verið kláruð sem fólst í athugun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir sem er miður fyrir sjómenn.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, það er grein 1.29.1. gildi ekki lengur og falli út úr samningnum sem felur í sér lækkun á skiptaprósentunni um 0,5% þegar landað er hjá skyldum aðila. Slík vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi, það er að annar samningsaðilinn taki út grein úr kjarasamningi þar sem hún hentar honum ekki lengur. Þessi vinnubrögð endurspegla vinnubrögð SFS og þurfa ekki að koma mönnum á óvart sem þekkja til vinnubragða útgerðarmanna. Málið hefur verið kært til félagsdóms sem tekur málið væntanlega fyrir 2. febrúar nk. Ekki er ólíklegt að kjaradeilunni verði jafnframt vísað til ríkissáttasemjara í febrúar nk. ef ekkert hreyfist í samningaviðræðunum fyrir þann tíma. Að mati stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar er það reyndar löngu tímabært. Eins og fram hefur komið í þessari samantekt um kjaramál er beðið eftir niðurstöðu Félagsdóms og í kjölfarið má reikna með að Sjómannasambandið vísi deilunni til ríkissáttasemjara þar sem SFS hefur ekki haft mikinn metnað fyrir því að setjast að alvöru við samningaborðið með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings. Að sjálfsögðu eiga sjómenn ekki að láta bjóða sér svona framkomu í þeirra garð.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar tókst ekki að klára endurskoðun á sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar á síðasta ári. Kjaraviðræðum var frestað í mars þegar COVID náði tökum á þjóðarskútunni og reyndar heimsbyggðinni allri. Sem betur fer kom það ekki á sök enda lítið um hvalaskoðun sumarið 2020 vegna heimsfaraldursins. Við höfum verið í sambandi við Samtök atvinnulífsins sem fara með samningsumboðið fyrir hönd útgerða hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík. Stefnt er að því að menn setjist að samningaborðinu í febrúar/mars og klári samninginn fyrir vorið, það er áður en hvalaskoðunarvertíðin byrjar. Að sjálfsögðu er það bundið því að búið verði að opna landið vegna COVID og frjáls för ferðamanna verði leyfð á ný milli landa.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Aðalsteinn Steinþórsson og Aðalgeir Sigurgeirsson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og formann Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma.

Heiðrun sjómanna:
Allt frá árinu 2010 hefur Sjómannadeildin séð um heiðrun sjómanna á sjómannadaginn á Húsavík. Vegna Covid var ákveðið að standa ekki fyrir heiðrun sjómanna árið 2020 enda féllu hátíðarhöld vegna Sjómannadagsins niður af sömu ástæðu. Vonandi verður hægt að heiðra sjómenn á vegum deildarinnar í ár enda verði heilbrigðisyfirvöld búin að aflétta fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnarreglna.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni og hefur þeim fækkað milli ára. Aðalsteinn J. Halldórsson lét af störfum haustið 2020 og réð sig til annarra starfa. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2020, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Þá vil ég þakka Aðalgeiri sem nú fellur úr stjórn deildarinnar sérstaklega fyrir vel unnin  störf í þágu deildarinnar á umliðnu starfsári.

Fh. stjórnar
Jakob Gunnar Hjaltalín

Formaður Sjómannadeildarinnar er hér þungt hugsi yfir stöðunni en hann var endurkjörinn sem formaður deildarinnar á aðalfundinum.

Deila á