Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum ásamt því að vinna önnur störf á vegum félaganna hefur látið af störfum hjá félögunum. Síðasti starfsdagur Aðalsteins var í gær. Aðalsteinn sem er í hlutastarfi sem oddviti Tjörneshrepps hefur þegar ráðið sig til starfa hjá Búnaðarsambandi Suður Þingeyinga við sæðingar og önnur tilfallandi störf. Stéttarfélögin og starfsmenn stéttarfélaganna vilja nota tækifærið og þakka Alla fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum um leið og honum er óskað velfarnaðar í nýju starfi hjá Búnaðarsambandinu.