Framsýn stóð fyrir áhugaverðum fundi í gær ásamt Brynju Sassoon sem lengi bjó í Svíþjóð en flutti nýlega til Húsavíkur og réð sig til starfa hjá PCC. Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni, Vinnumálastofnun og Félagsþjónustu Norðurþings.
Þegar Brynja Sassoon bjó í Svíþjóð kynntist hún verkefni sem byggir á því að auka lífsgæði eldra fólks í Svíþjóð, ekki síst þeirra sem neyðast til að hætta á vinnumarkaði vegna aldurs. Það er að vinna með fólki sem er tilboðið að taka að sér vinnu á sínum eigin forsendum, ekki síst í skemmri tíma. Það er ákveðna tíma á dag, viku eða á mánuði. Eins og kunnugt er, eru ákvæði í sumum kjarasamningum að við ákveðin aldursmörk er starfsmönnum gert að láta af störfum þrátt fyrir að hafa góða heilsu og löngun til að vinna áfram eða vera í hlutavinnu meðan heilsan leyfir.
Starfslok fela í sér miklar breytingar í lífi fólks. Vinnan er stór hluti af lífi okkar, ekki einungis vegna framfærslu. Félagsskapur vinnufélaganna, örvunin sem felst í því að fást við verkefnin í vinnunni og lífsfyllingin sem tilfinningin um að hafa hlutverk eru meðal þess að fólk talar um að það sakni þegar það hverfur af vinnumarkaði. Sumir upplifa einangrun og einsemd; vinnan hefur verið svo stór hluti af lífi þeirra. Tekjur flestra dragast einnig saman við starfslok. Það getur því verið góður kostur að hafa möguleika á að minnka við sig vinnu í áföngum, auka tekjur sínar umfram það sem lífeyrir veitir en miða vinnuframlag við getu, heilsu og ný viðfangsefni í lífinu. Rannsóknir sýna að virkni eldri borgara veitir þeim lífsfyllingu og skilar sér í góðri heilsu, sem kemur samfélaginu líka til góða.
Hvað þetta sérstaka verkefni varðar og kennt er við Svíþjóð, þá skrá eldri borgarar sig hjá ákveðnum aðila sem heldur utan um verkefnið. Viðkomandi eldri borgari ákveður sjálfur hvaða daga og hversu marga klukkustundir hann treystir sér til að vinna á viku/mánuði. Gengið er frá umsókn um starfsgetu, í hvaða starfsgrein viðkomandi vill vinna og önnur störf sem hann gæti hugsað sér að vinna. Aðilinn sem heldur utan um verkefnið tekur við fyrirspurnum og kemur þeim áleiðis til þeirra sem eru á skrá. Gangi allt eftir mætir eldri borgarinn á vinnustaðinn, stimplar sig inn og stimplar sig út í lok vinnudags. Að sjálfsögðu getur skráningin verið með öðrum hætti. Ábyrgðaraðilinn með verkefninu sér um að fylgja málinu eftir og tryggir að þeir aðilar sem taka þátt í verkefninu fái gert upp við hver mánaðamót eða eftir samkomulagi. Boðið verður upp á að stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar geti fengið auka aðstoð í stuttan tíma. Það er, í boði er að fá fólk með mikla reynslu í afmörkuð verkefni, fólk með margra ára reynslu og þekkingu á sínu sviði, stundvísi, kunnáttu, fagmennsku og heiðarleika.
Eins og áður hefur komið fram er um áhugavert verkefni að ræða sem hefur reynst vel í Svíþjóð. Það hefur hins vegar ekki þekkst á Íslandi. Á fundinum gær kom fram mikil áhugi fyrir því að skoða málið frekar og mun Brynja vinna áfram að málinu og m.a. kynna það betur fyrir Félagsþjónustu Norðurþings og Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni sem buðu henni að mæta með kynningu til þeirra. Til viðbótar má geta þess að vilji menn fræðast betur um þetta verkefni eða gerast aðilar að verkefninu er það meira en velkomið.