Öll vikan hefur einkennst af fyrirspurnum frá fyrirtækjum sem hafa verið að velta fyrir sér stöðunni í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu sem tengjast Covid- 19. Það er, fyrirtæki hafa verið að velta fyrir sér uppsögnum, hlutabótaleiðinni og öðrum málum er tengjast starfsmannamálum. Það er nefnilega ekki bara þannig að félagsmenn leiti til stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna heldur eru forsvarsmenn fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga reglulegir gestir á Skrifstofu stéttarfélaganna í leit að upplýsingum. Eðlilega notast þeir oftast við tæknina og hafa samband í gegnum síma eða með því að senda okkur tölvupósta. Gott traust milli fyrirtækja og stéttarfélaga er lykillinn að góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins.
Hvað þetta varðar vegna Covid ástandsins hafa starfsmenn fyrirtækja einnig verið töluvert í sambandi sem tengist stöðu þeirra í þessum samdráttartímum. Eðlilega hafa menn áhyggjur af stöðinni.
Það er ekki laust við að mikill tími hafi farið í málefni starfsmanna Leikskólans á Grænuvöllum í vikunni. Stéttarfélögin stóðu að fundi með starfsmönnum sem fjölmenntu á fundinn enda mikil reiði meðal þeirra. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu bauðst starfsmönnum að taka þátt í fundinum á netinu sem þeir og gerðu. Aðgerðir Norðurþings gagnvart stafsmönnum eru mjög harkalegar svo ekki sé meira sagt. Starfsfólkið og stéttarfélögin hafa þegar mótmælt þessum aðgerðum og kallað eftir endurskoðun á þeim. Auk þess kallar starfsfólkið eftir virðingu Norðurþings vegna starfa þeirra fyrir sveitarfélagið sem staðið hefur vaktina á Covid tímum.
Í síðustu kjarasamningum, það er í Lífskjarasamningunum sömdu iðnaðarmenn um vinnutímabreytingar og vinnutímastyttingar. Um er að ræða nokkuð flóknar breytingar sem koma áttu til framkvæmda að hluta 1. apríl 2020 og að fullu fyrir 1. janúar 2022. Ákvæðið nær til félagsmanna Þingiðnar. Fyrirtæki á félagssvæði Þingiðnar hafa verið að taka nýju ákvæðin upp og þurft í sumum tilvikum aðstoð við útfærsluna og hafa því leitað til Skrifstofu stéttarfélaganna, meðal annars í þeirri viku sem er að líða.
Félagsmenn hætta við að fara suður. Margar afbókanir hafa borist Skrifstofu stéttarfélaganna í vikunni varðandi íbúðir stéttarfélaganna í Reykjavík og Kópavogi. Hertar sóttvarnarreglur heilbrigðisyfirvalda og hræðsla við Covid spilar þar stóra rullu. Að sjálfsögðu er mikilvægt að menn fari varlega á tímum sem þessum og fari ekki í óþarfa ferðalög, ekki síst milli landshluta.
Þrátt fyrir töluverðar þrengingar í íslensku efnahagslífi er ánægjulegt að segja frá því að alls konar fyrirtæki/fjárfestar eru að skoða möguleikana á því að hefja starfsemi í og við Húsavík. Það er alltaf ánægjulegt þegar fjárfestar sína svæðinu áhuga. Í gegnum tíðina hafa ein og ein hugmynd sem komið hafa fram orðið að veruleika sem skipt máli fyrir svæðið, bæði stórar og smáar. Vonandi verður afurð úr einhverjum af þeim hugmyndum sem nú eru til skoðunar að veruleika í framtíðinni.
Atvinnuleysið heldur áfram að banka á dyrnar. Samtals voru um 200 manns á atvinnuleysisskrá í september á félagssvæði stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Því miður má búast við því að það aukist frekar eftir að sauðfjárslátrun á Húsavík og á Kópaskeri klárast í haust.
Ég sagði frá því í síðustu viku að tíðinda væri að vænta varðandi frekari starfsemi stéttarfélaganna. Það verður tilkynnt formlega föstudaginn 16. október. Smá spenningur í loftinu!
Ný reglugerð um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 hafa tekið gildi og leggja stéttarfélögin; Framsýn, Þingiðn og STH áherslu á að fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda um hertar sóttvarnir. Vegna þessa vilja stéttarfélögin og starfsmenn þeirra hvetja félagsmenn eindregið til að nýta sér síma, tölvupóst og vefsíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is fremur en að mæta á skrifstofuna komi þeir því við. Fjölmörgum erindum er hægt að sinna gegnum síma og með tölvupósti, en að sjálfsögðu er áfram tekið á móti félagsmönnum á opnunartíma sem er 08:00-16:00 alla virka daga.
Njótum þess að vera til um helgina ágætu lesendur til sjávar og sveita!
Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar
(Skrifa þennan pistil til fróðleiks fyrir félagsmenn, hugsanlega vikulega gefist tími til þess. Viðbrögðin við síðasta pistli í vikunni sem leið voru það góð að ég ákvað að senda þennan frá mér inn í helgina)