Framsýn hefur ákveðið að auka námsstyrki til félagsmanna sem fullnýta styrki úr starfsmenntasjóðum sem þeir eiga aðild að í gegnum kjarasamninga sem Framsýn á aðild að. Það er Landsmennt, Ríkismennt, Sjómennt, Sveitamennt og Fræðslusjóð verslunarmanna. Miðað við full réttindi eiga félagsmenn rétt á 130.000 króna styrk á ári frá þessum sjóðum. Noti menn réttinn ekki á hverju ári getur hann safnast upp í allt að 390.000 króna rétt á þriggja ára tímabili. Til viðbótar þessum góðum styrkjum hefur Framsýn ákveðið að bjóða þeim félagsmönnum sem stunda dýrt nám allt að 100.000 króna styrk til viðbótar úr Fræðslusjóði Framsýnar. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn á erfiðum tímum þegar búast má við töluverðu atvinnuleysi næstu mánuðina. Varðandi þá styrki sem nefndir eru hér að ofan gilda þeir ekki bara fyrir formlegt nám sem félagsmenn stunda heldur einnig fari þeir á styttri eða lengri námskeið sem og á tómstundanámskeið. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.