Í flestum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í matvörukönnun ASÍ sem framkvæmd var þann 8. september í verslunum staðsettum á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Í 43 tilvikum af 98 var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði og í 21 tilviki 40-60% munur. Könnunin náði bæði til stærri verslanakeðja og minni matvöruverslana sem eru í eigu sjálfstæðra aðila en verslanirnar sem voru skoðaðar eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Skerjakolla, Urð, Verslunin Ásbyrgi og Dalakofinn.
Nettó var oftast með lægsta verðið, í 63 tilvikum af 98 og Kjörbúðin næst oftast, í 40. Urð, Raufarhöfn var með lægsta verðið í sex tilvikum og Skerjakolla, Kópaskeri í þremur tilvikum. Skerjakolla var oftast með hæsta verðið í 47 tilvikum og Krambúðin næst oftast, í 20 tilvikum. Urð var með hæsta verðið í 14 tilvikum, Dalakofinn í 10 og Kjörbúðin í 5 tilvikum.
102% munur á kílóverði af Cheeriosi og 57% á ýsuflökum
Dæmi um mikinn verðmun í könnuninni var 83% munur á hæsta og lægsta kílóverði á heilum kjúklingi, lægst var verðið í Nettó og Kjörbúðinni, 699 kr. en hæst í Skerjakollu, 1.279 kr. Þá var 57% munur á hæsta og lægsta verði af ýsuflökum, lægst var verðið í Urð, 1.590 kr. kílóið en hæst í Skerjakollu, 2.498 kr.
Fleiri dæmi um mikinn verðmun í könnuninni er 118% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi, 139% munur á hæsta og lægsta verði af frosnum jarðaberum og 108% verðmunur á Pringles stauk. Þá var 102% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Neutral þvottaefni og 132% munur á 2 lítrum af Pepsi Max. Þá var í mörgum tilfellum gríðarlegur verðmunur á grænmeti og ávöxtum.
Þrátt fyrir að Nettó og Kjörbúðin hafi í heildina litið komið töluvert betur út í verðkönnuninni en minni verslanir mátti finna dæmi um að verð væru lægri í minni verslunum sem eru reknar af sjálfstæðum aðilum eða að verðmunurinn væri tiltölulega lítill. Oftar kom það þó fyrir að verð í minni verslununum væru lægri en í Krambúðinni.
Mikill munur var á vöruúrvali í verslununum en mest var úrvalið í Nettó þar sem 96 vörur fengust af þeim 98 sem voru í könnuninni en minnsta úrvalið var í Versluninni Ásbyrgi þar sem 23 vörur fengust. 88 vörur fengust í Kjörbúðinni, 86 í Krambúðinni, 77 í Urð, 65 í Skerjakollu og 54 í Dalakofanum Laugum. Vert er að hafa í huga að verðkönnunin var framkvæmd í öðrum útibúum Nettó, Kjörbúðarinnar og Krambúðarinnar en þeim sem eru á svæðinu og getur því verið einhver munur á vöruúrvali.
Könnunin var gerð í matvöruverslunum um land allt og má sjá niðurstöður fyrir allt landið á heimasíðu ASÍ, www.asi.is.
Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem þjóna neytendum í dreifbýli til stórra keðjuverslana.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vara sem er það verð er neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni, að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ