Fundað með forystusveit ASÍ

Fulltrúar Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar funduðu í gær með forsetum ASÍ og tveimur starfsmönnum sambandsins í gegnum fjarfundarbúnað. ASÍ hefur hafið fundarherferð með það að markmiði að funda með forsvarsmönnum stéttarfélaga innan ASÍ á næstu vikum. Fundurinn í gær var liður í þeirri fundarherferð. Forseti ASÍ, Drífa Snædal, kynnti hugmyndir Alþýðusambandsins um réttu leiðina út úr kreppunni. „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða“

Frá kreppu til lífsgæða
Að mati ASÍ þarf á tímum kreppu og allsherjar samdráttar, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, að vinna eftir skýrri framtíðarsýn. Í máli Drífu kom fram að Alþýðusamband Íslands hvetur stjórnvöld og þjóðina alla til samstöðu um aðgerðir til að marka veginn frá kreppu til lífsgæða fyrir okkur öll. Stokkum spilin. Höfnum sérhagsmunum, eflum grunnstoðirnar og setjum fólk í öndvegi.  Tillögurnar eru í takti við stefnu alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti (e. Just Transition) og sækja í alþjóðlega umræðu um grænan samfélagssáttmála (e. Green New Deal). Unnið er eftir viðmiðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um að atvinnusköpun skuli vera í fyrirrúmi við aðgerðir gegn kreppunni.

ASÍ hefur lagt fram metnaðarfullar tillögur um að skapa atvinnu á nokkrum tilteknum sviðum sem eru til þess fallin að byggja fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf þar sem allir sem vilja geta fengið störf við hæfi. Sett er fram skýr framtíðarsýn um framfærslutryggingu, traust húsnæði, öfluga innviði og gjaldfrjálsa grunnþjónustu en með þeim hætti býr Ísland sig undir fyrirsjáanlegar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum og tryggir að þær verði ekki til að auka á ójöfnuð og fátækt. Til þess þarf vinnumarkaðurinn jafnframt að byggja á traustum ráðningarsamböndum, skipulagðri verkalýðshreyfingu og kjarasamningum, auk þess að styðja gott samspil vinnu, fjölskyldulífs og frístunda.

Órói og samstarf hagsmunaaðila

Á fundinum í gær urðu umræður um erindi Framsýnar til ASÍ. Í fyrsta lagi hefur Framsýn hvatt til breiðrar samstöðu meðal þeirra hagsmunasamtaka sem eiga það sameiginlegt að vinna að velferð fólks á vinnumarkaði og þeirra sem hætt hafa á vinnumarkaði vegna örorku. Ekki var annað að heyra en að Alþýðusambandið væri tilbúið að fylgja þessari hugmynd Framsýnar eftir með auknu samstarfi við þessi hagsmunasamtök.

Í öðru lagi hefur Framsýn gagnrýnt þau vinnubrögð sem voru viðhöfð innan miðstjórnar ASÍ þegar upp kom ágreiningur innan miðstjórnar um viðbrögð við tillögum Samtaka atvinnulífsins um ákveðna eftirgjöf vegna stöðunnar hjá fyrirtækjum sem rekja má til Covid ástandsins. Í kjölfarið sögðu þrír fulltrúar sig úr miðstjórn, sem síðar lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir að taka aftur við störfum innan sambandsins, því var hafnað að hálfu miðstjórnar. Miðstjórn ASÍ er vart starfshæf eftir þessi átök sem ekki er séð fyrir endann á, það veit ekki á gott þegar fulltrúar frá stærsta aðildarfélaginu innan ASÍ eru ekki þátttakendur í störfum ASÍ með setu í miðstjórn sambandsins. Þá var framkvæmdastjóri sambandsins nýlega ráðinn án auglýsingar sem Framsýn hefur gagnrýnt. Hreyfing sem kennir sig við lýðræði á ekki að ástunda svona vinnubrögð að mati Framsýnar. Forseti ASÍ svaraði fyrir ráðninguna á framkvæmdastjóranum og fór nokkrum orðum um átökin sem verið hafa innan miðstjórnar eftir brotthvarf þremenninganna.

Fundurinn var hreinskilinn og góður enda mikilvægt að menn geti skipst á skoðunum þrátt fyrir að vera ekki sammála um öll þau mál sem koma inn á borð Alþýðusambandsins á hverjum tíma.

 

Deila á