Framsýn hefur áhyggjur af atvinnulífinu – kallar eftir samstöðu meðal hagsmunaaðila

Eins og kunnugt er herjar Covid 19 veiran á heimsbyggðina, þar á meðal á Ísland. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi og víða um heim vinna markvist að því að bregðast við þessum alvarlega vanda með öllum tiltækum ráðum.

Það er ekki bara ástæða til að hafa áhyggjur af heilsufari fólks heldur er atvinnulífið líka undir og þar með lífsviðurværi fólks og rekstur sveitarfélaga.  Undanfarna daga hefur töluvert álag verið á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík þar sem atvinnurekendur í Þingeyjarsýslum hafa verið að leita ráða er varðar stöðuna og starfsmannahald. Fyrirtæki hafa skuldbindingar gagnvart sínum starfsmönnum og sjá fram á erfiða tíma og tekjusamdrátt. Vissulega standa fyrirtækin misvel en sum þeirra reikna með að þurfa að bregðast við með uppsögnum eða með því að semja við starfsmenn að taka á sig kjaraskerðingar og jafnvel skert starfshlutfall. Vitað er að ríkistjórnin er með ákveðnar hugmyndir sem ganga út á að koma til móts við fyrirtæki í þessum mikla vanda sem verða væntanlega kynntar á allra næstu dögum.

Með bréfi til sveitarfélaga á félagssvæði Framsýnar, sem fór frá félaginu í gær, hvetur félagið sveitarfélög í Þingeyjarsýslum til að bregðast við þessum alvarlega vanda með því að setja á fót aðgerðarhóp sem hafi það að markmiði að vinna að hagsmunum atvinnulífsins á svæðinu. Slíkur aðgerðarhópur verði skipaður fulltrúum sveitarfélaga, stéttarfélaga, atvinnurekanda(SANA) og jafnvel fjármálastofnana á svæðinu, Íslandsbanka, Landsbankans og  Sparisjóðs Suður Þingeyinga sem hafa mikilla hagsmuna að gæta að vel fari.

Framsýn lýsir sig reiðubúið að koma að þessari vinnu með sveitarfélögunum enda hafi þau forgöngu um að slíkir starfshópar verði myndaðir í hverju sveitarfélagi eða sameiginlegur starfshópur á vegum sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum. Að mati Framsýnar er mikilvægt að slíkur starfshópur/hópar verði myndaðir þegar í stað utan um atvinnulífið í héraðinu og þar með starfsfólkið sem treystir á að halda vinnunni. Takist ekki að verja atvinnulífið mun atvinnuleysið á svæðinu aukast á næstu vikum og mánuðum.

 

Deila á