Fleygar og rökstuðningur – Málefni AÞ til umræðu

Eins og áður hefur komið fram hafa Samtök atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Framsýn stéttarfélag, sem telur hátt í fjögur þúsund félagsmenn, mótmælt sameiningu Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna á Norðurlandi eystra. Sé tekið mið af viðbrögðum almennings við yfirlýsingu SANA og Framsýnar er mjög mikil andstaða við þessa sameiningu meðal Þingeyinga.

Oddvitar fimm sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum, SANA og Framsýnar.  Þar segir meðal annars: „Við afþökkum með öllu þá fleyga sem nú er reynt að reka okkar á milli, af aðilum sem einmitt eru okkur svo mikilvægir bandamenn í að markmið okkar náist.“

Áfram er haldið: „Nú þegar ný samtök eru að brölta upp úr startblokkunum í því langhlaupi sem framundan er getum við ekki annað en lýst vonbrigðum með ótímabæra og ósanngjarna kröfu Framsýnar stéttarfélags og stjórnar SANA um að Þingeyingar hætti við aðild að því mikilvæga samstarfi sem nú hefur verið myndað.“

Oddvitarnir skauta fimlega fram hjá þeim markmiðum sem lagt var upp með í upphafi varðandi starfsemi sameiginlegs félags s.s. þeim að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Í fundargerð Eyþings frá 9. apríl 2019 kemur skýrt fram: „Starfsstöðin á Húsavík verði jafnframt aðalskrifstofa félagsins.“  Síðar hurfu þessi markmið eins og dögg fyrir sólu sem og önnur, sem áttu að vera forsendur þess að menn legðu upp í þessa vegferð. Hvað varð um markmiðin?  Oddvitarnir skulda Þingeyingum svör við því. Undirritaður hefur sent þeim flestum fyrirspurnir varðandi sameininguna sem og formanni nýju samtakanna SSNE og kallað eftir svörum við nokkrum spurningum.  Staðið hefur á svörum enda greinilega ekki vilji til þess að ræða málið eða svara spurningum með lýðræðislegum hætti.

Því miður virðist sem oddvitarnir hafi einangrað sig úti í horni þar sem megn óánægja er með sameininguna meðal Þingeyinga og meðal þess fólks sem starfar með þeim að sveitarstjórnarmálum.

Tökum dæmi:

Undirritaður, fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, lagði fram harðorða bókun á síðasta stjórnarfundi AÞ um sameininguna sem er meðfylgjandi þessum skrifum sem og yfirlýsing SANA og Framsýnar um sama mál. Fundurinn var 29. janúar 2020 í Kjarna á Laugum.

„Umræða varð um efni bókunarinnar og það vinnuferli sem viðhaft hefur verið við sameininguna fram að þessu. Fram kom óánægja með hvernig mál hefðu þróast, m.a. gagnrýni á að samþykktir aðalfundar Eyþings um að höfuðstöðvar hinna nýju samtaka yrði staðsett á Húsavík hefðu horfið úr vinnuferlinu, bæði í drögum að samþykktum samtakanna og í meðförum stjórnar hinna nýju samtaka, t.a.m. þegar starf framkvæmdastjóra var auglýst.„

Þetta stendur orðrétt í fundargerð stjórnar AÞ.

Fundargerðin er aðgengileg á heimasíðu félagsins. Hverjir voru það sem höfðu þessar áhyggjur af stöðu mála fyrir utan fulltrúa atvinnulífsins, það er Framsýnar og SANA? Jú, fulltrúar skipaðir af sveitarstjórnum Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps og Norðurþings í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Fulltrúi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps komst ekki til fundarins en sendi skýr skilaboð til fundarins þar sem fulltrúinn kom sínum skoðunum vel á framfæri, hætta ætti við sameininguna. Er von að spurt sé, eru oddvitarnir gjörsamlega sambandslausir við umhverfið og samstarfsfólk í sveitarstjórnum?

Á áðurnefndum stjórnarfundi AÞ kom fram hjá framkvæmdastjóra félagsins að hann teldi að gengið hefði  verið fram hjá honum við ráðningu á framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag. Ég tek heilshugar undir með honum sem og fjölmargir aðrir. Væntanlega hefur komið honum um koll að búa á Húsavík enda unnið markvisst að því að koma starfseminni til Akureyrar eftir vafasömum leiðum.

Framkvæmdastjóri AÞ kom óánægju sinni vel á framfæri á fundinum og hefur óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og fram kemur í fundargerð fundarins:

„Framkvæmdastjóri gerði stjórn grein fyrir því að hann hefði sótt um starf framkvæmdastjóra hinna nýju samtaka og væri afar ósáttur við niðurstöðu stjórnar í ráðningarferlinu og hefði óskað eftir rökstuðningi fyrir henni.“

Til viðbótar má geta þess að oddviti VG í Norðurþingi sem fór fyrir sínu fólki í síðustu sveitarstjórnarkosningum og er nú í fríi frá sveitarstjórnarmálum hefur blandað sér í umræðuna með því að skrifa ágæta færslu inn á Facebook varðandi umræðuna sem átt hefur sér stað innan sveitarfélagsins Norðurþings um málið, það er í aðdraganda sameiningarinnar. Fyrir þá sem ekki vita er VG í meirihlutasamstarfi í Norðurþingi. Í færslunni  kemur meðal annars fram:

Mér er sagt að þetta mál eigi sér lengri aðdraganda en ég þekki af eigin raun. En það kom alla vega til tals í upphafi síðasta kjörtímabils og virtist mér þá afstaða fólks/flokka ekki fara eftir neinum línum. Sjálfum fannst mér þá, og finnst enn, þetta vera misráðið og sagði þá skoðun mína skýrt á þeim vettvangi sem þetta bar á góma. Ég stóð fyrir bókun fyrir 2 og hálfu ári sem var samþykkt samhljóða í byggðarráði Norðurþings og staðfest í sveitarstjórn síðar.“

Bókunin er hér meðfylgjandi:

Er von að spurt sé, er ekki eitthvað að í stjórnsýslunni þegar mál hafa þróast með þeim hætti sem komið hefur verið inn á í þessari samantekt. Væntanlega verður því miður ekki hægt að snúa þessari vanhugsuðu ákvörðun við, nema menn noti skynsemina og afturkalli sameininguna sem væri það eina rétta í stöðunni. Þrír af þeim oddvitum sem skrifuðu undir yfirlýsinguna gegn skoðunum Framsýnar og SANA hafa nú komið sér vel fyrir í stjórn sameiginlegs félags, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Það verður áhugavert að fylgjast með störfum þeirra á þeim vetfangi.

 Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

  

Yfirlýsing

Lögð fram á stjórnarfundi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga 29. janúar 2020.

Undirritaður, stjórnarmaður í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, gerir alvarlegar athugasemdir við sameiningu félagsins við Eyþing og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar undir nafninu; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Aðvörunarorð sem undirritaður hefur viðhaft í aðdraganda sameiningar hafa því miður flest ef ekki öll gengið eftir. Til viðbótar hefur verið illa haldið á málinu frá upphafi.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur í gegnum tíðina gengt mikilvægu hlutverki í Þingeyjarsýslum. Tilgangur félagsins hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á starfssvæðinu og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun. Markmið félagsins hefur auk þess verið að stuðla að jákvæðri þróun atvinnumála, bæta almenn búsetuskilyrði á starfssvæðinu og auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífinu.

Þá hefur félagið komið að margvíslegum verkefnum s.s. verkefninu „Brothættar byggðir“ sem hófst árið 2014 á vegum Byggðastofnunar. Markmiðið með verkefninu hefur verið að styðja við byggð og stöðva fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum á Íslandi s.s. í Öxarfirði, Raufarhöfn og Bakkafirði. Hvað verkefnið varðar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga verið í forystuhlutverki í héraðinu og unnið náið með Byggðastofnun, íbúum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum.

Frá fyrstu tíð hefur verið kappkostað að stjórn Atvinnuþróunarfélagsins á hverjum tíma endurspegli skoðanir og hagsmunni sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum. Stjórnin hefur verið skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að félaginu auk fulltrúa frá atvinnurekendum (SANA) og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum. Í gegnum tíðina hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar er viðkemur hagsmunum fyrirtækja, stofnana og íbúa á svæðinu, það er verið á jafnréttisgrundvelli. Reyndar verið ákveðin fyrirmynd þar sem fulltrúar atvinnulífsins hafa auk sveitarstjórnarmanna átt fast sæti í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Þrátt fyrir stærð Norðurþings hefur sveitarfélagið ekki gert kröfu um stjórnarformennsku í félaginu.

Nú ber svo við að pólitíkin hefur ákveðið að rústa þessu samstarfi með því að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi. Allir starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hafa fengið uppsagnarbréf og vita því lítið um sína framtíð.

Kjörin hefur verið sjö manna stjórn skipuð sveitarstjórnarmönnum, það er fjórum fulltrúum frá sveitarfélögum við Eyjafjörð og þremur frá sveitarfélögum úr Þingeyjarsýslum. Til að tryggja vægi Akureyrar gerði sveitarfélagið kröfu um að stjórnarformaðurinn komi ávallt frá Akureyri auk þess sem sveitarfélagið verði með tvo stjórnarmenn til að tryggja stöðu sína enn frekar. Í nýrri stjórn er ekki gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa frá atvinnulífinu. Þannig flyst valdið sem var til staðar hjá sveitarstjórnarmönnum og aðilum vinnumarkaðarins í Þingeyjarsýslum í atvinnumálum vestur um til Akureyrar.

Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið á aukaaðalfundi Eyþings 9. apríl 2019 að starfsstöðin á Húsavík yrði jafnframt aðalskrifstofa félagsins fyrir sameinað félag virðist sem það ætli ekki að ganga eftir þar sem í endanlegum samþykktum félagsins er talað um að varnarþing félagsins verði á Húsavík. Ekki er lengur talað um að aðalskrifstofa félagsins verði á Húsavík, hvað þá að framkvæmdastjórinn hafi fasta viðveru þar.

Þá vekur athygli að Capacent sem var falið að koma að ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra taldi ekki ástæðu til að auglýsa á starfsvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga eftir framkvæmdastjóra fyrir nýtt sameinað félag á Norðurlandi. Þess í stað var auglýst í miðlum á Akureyri. Eftir að undirritaður gerði athugasemd við auglýsinguna var honum þakkað fyrir ábendinguna s.br. eftirfarandi svar; „Takk fyrir ábendinguna, mjög góður punktur. Auglýsingin mun á næstunni birtast í Skránni.“

 Fyrir liggur að búið er að ráða framkvæmdastjóra fyrir sameinað félag og vil ég nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í starfi um leið og ég gagnrýni stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra harðlega fyrir að sniðganga Reinhard Reynisson framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem var meðal umsækjanda.

Reinhard hefur langa og viðtæka reynslu á sviði atvinnuþróunar og starfsemi sveitarfélaga enda fyrrverandi sveitarstjóri og sveitarstjórnarmaður. Þá hefur hann gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ýmsa aðila og samtök er viðkoma málefnum sem koma til með að falla undir frekari atvinnuþróun og starfsemi sveitarfélaga á Norðurlandi eysta.

Stjórn SSNE skuldar stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga rökstuðning fyrir þessari ákvörðun að horfa fram hjá ráðningu Reinhards Reynisonar í starf framkvæmdastjóra.

Að lokum vill undirritaður lýsa yfir fullum stuðningi við störf  Reinhards Reynisonar í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um leið og honum eru þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins sem framkvæmdastjóri og fyrir ánægjulegt samstarf að málefnum félagsins í gegnum tíðina.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
fulltrúi stéttarfélaganna í stjórn AÞ

 

  

FRÉTTATILKYNNING FRÁ SAMTÖKUM ATVINNUREKENDA Á NORÐAUSTURLANDI (SANA) OG FRAMSÝN STÉTTARFÉLAGI Í ÞINGEYJARSÝSLUM

Misráðin sameining  Atvinnuþróunarfélaga í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslum

Nýverið samþykktu sveitarfélögin við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum að sameina Atvinnuþróunarfélög Eyjafjarðar og Þingeyinga við landshlutasamtökin Eyþing. Þessi nýju samtök kalla sig Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Ákvörðun um þetta var tekin af meirihluta í þeim  sveitarstjórnum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem mynda kjölfestuna í hinu nýja félagi. Hvorki almennir íbúar eða  fyrirtæki höfðu sérstakt vægi við þessa ákvörðun og heyrðu  einungis af henni í fjölmiðlum. Þannig voru ekki haldnir kynningarfundir fyrir íbúa eða fyrirtæki í aðdraganda þessarar ákvörðunar.

Samtök atvinnurekenda á Norðausturlandi (SANA) og Framsýn stéttarfélag hafa átt sinn fulltrúann hvort í  stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um árabil. Báðir þeir stjórnarmenn voru skeptískir á þennan samruna sem myndað hefur SSNE enda þótti þeim óljóst hver hagræðið ætti að vera fyrir stuðning við atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.  Auk þess óttuðust  þeir að völd og ákvarðanataka hins nýja félags myndu verða á  Akureyri vegna ójafns íbúafjölda. Afstaða SANA og Framsýnar gat ekki komið í veg fyrir samrunann enda hafa sveitarfélögin sjálf  lang mest vægi innan félaganna þriggja.

Nú hefur komið í ljós það sem fulltrúar SANA og Framsýnar  óttuðust – þ.e. að í samþykktum hins nýja félags SSNE stendur skýrum stöfum að stjórnarformaður nýja félagsins skuli um  ókomna tíð koma frá Akureyri hvað sem tautar og raular.  Nýráðinn framkvæmdastjóri SSNE er svo auk þess einnig búsettur á Akureyri. Meirihluti stjórnar verður frá Eyjafjarðarsvæðinu í krafti íbúafjölda. Í samþykktunum kemur þó fram að  varnarþing skuli vera á Húsavík en það hefur augljóslega lítið vægi miðað við hin atriðin.

Stjórn SANA og Framsýnar skora hér með á sveitarfélögin í  Þingeyjarsýslum að ganga tafarlaust úr nýstofnuðu félagi enda  liggur fyrir að völd og ákvarðanataka verður öll utan Þingeyjarsýslna og því mun betur heima setið fyrir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga en af stað farið.

Húsavík, 7. febrúar 2020

 Í stjórn SANA,
Guðmundur Vilhjálmsson formaður, framkvæmdastjóri Garðvíkur ehf
Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf.
Helgi Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gríms ehf.

Fyrir hönd Framsýnar,
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á