Það tekur á að taka þátt í kjaraviðræðum og kynningum á samningum. Á undanförnum vikum hefur Framsýn gengið frá kjarasamningum sem ná til um 300 félagsmanna, það er fyrir starfsmenn sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum og nú fyrir félagsmenn sem starfa hjá Landsvirkjun á svæðinu í fjórum aflstöðvum. Frá þeim samningi var gengið í gær. Eftir oft langar og strangar viðræður klárast vinnan með undirskrift kjarasamninga. Í kjölfarið taka við kynningar og síðan atkvæðagreiðslur um samninganna. Þessari vinnu fylgja oft löng og ströng ferðalög. Sem dæmi má nefna að formaður Framsýnar kom að því að klára samning á vegum Starfsgreinasambands Íslands við Landsvirkjun síðdegis í gær, fundað var í Reykjavík. Hann var síðan mættur með flugi til Húsavíkur í morgun til að undirbúa sig fyrir kynningarfund með starfsmönnum Norðurþings á Raufarhöfn sem fram fer síðdegis í dag. Sá samningur var undirritaður á dögunum og er nú í kynningu og atkvæðagreiðslu. Áður en hann heldur til Raufarhafnar verður hann þó að taka tveggja tíma símafund á vegum Starfsgreinasambandsins um nýjar útfærslur á vaktavinnu hjá hinu opinbera og styttingu vinnuvikunnar hjá þeim hópi. Ósamið er við ríkið vegna félagsmanna Framsýnar og annarra stéttarfélaga sem starfa á opinberum stofnunum og er fundurinn á eftir liður í því ferli að klára kjarasamning við ríkið, sem reyndar er ekki séð fyrir endann á.