Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að gekk frá nýjum kjarasamningi í gær við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Samningurinn nær til 17 aðildarfélaga sambandsins.
Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:
- Laun hækka um 90.000 kr. á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.
- Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
- Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
- Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasamning fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.
- Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022. SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar.
- Tekið er upp nýtt ákvæði um að starfsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
- Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.
- Þá verður réttur starfsmanna sveitarfélaga til desemberuppbótar aukinn.
- Nú geta starfsmenn sveitarfélaga sótt um að starfa til 72 ára aldurs. Í dag geta menn starfað til 70 ára aldurs.
- Réttur vegna veikinda barna er aukin úr 13 ára í 16 ára aldur enda sé um alvarleg veikinda að stríða.
- Réttur barnshafandi kvenna er aukin varðandi nauðsynlegar fjarvistir frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar. Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar í dag kl. 17:00 þar sem formaður félagsins mun gera grein fyrir helstu atriðum samningsins.
Rétt er að taka fram að Framsýn hefur ekki ákveðið hvort atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn eða ekki. Ákvörðun þess efnis verður tekin á stjórnarfundinum í dag. Reiknað er með að félagsmenn fái helstu upplýsingar um kjarasamninginn til sín í pósti, málið er í skoðun. Alls eru 272 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá um þennan kjarasamning.