Nýverið vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga í Félagsdómi varðandi rétt tímavinnukaups til eingreiðslu sem samið var um í haust milli samningsaðila auk þess varðar þetta líka orlofs- og desemberuppbótina í gegnum tíðina. Meðfylgjandi þessari frétt er umfjöllun tekin af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness sem varðar málið.
Framsýn hefur með bréfi í morgun kallað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum í Þingeyjarsýslum, hvort þau hafi mismunað tímakaupsfólki með þeim hætti sem greinir í máli þessu. Það er að tímavinnufólk hafi ekki setið við sama borð og fastráðið fóllk varðandi einstakar greiðslur, orlofs- og desemberuppbætur.
(Tekið af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness)
“Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga er laut að rétti tímakaupsfólks til eingreiðslu að fjárhæð 42.500 kr. sem greidd var þann 1. febrúar á þessu ári.
En á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að skilja ætti tímakaupsfólk eitt eftir án réttar til greiðslunnar.
Það er skemmst frá því að segja eins áður hefur komið fram að Félagsdómur tók undir allar dómkröfur Verkalýðsfélags Akraness og vann félagið því fullnaðar sigur í málinu sem kom formanni ekki á óvart enda blasti við að málatilbúnaður Sambands íslenskra sveitafélaga stóðst ekki eina einustu skoðun.
En það er morgunljóst að þessi dómur hefur mikið fordæmisgildi enda voru rök lögmanns Sambands íslenskra sveitafélaga þau að hvorki Reykjavíkurborg né ríkið hafi greitt umrædda eingreiðslu til starfsmanna sem tóku laun eftir tímakaupi.
Það er ekki bara það að Sveitafélögin, Ríkið og Reykjavíkurborg þurfi að greiða tímakaupsfólki umrædda eingreiðslu sem kemur út úr þessum dómi, heldur einnig það að búið er að hlunnfara tímakaupsfólk illilega þegar kemur að því að reikna út rétt til orlofs-og desemberuppbótar.
En sveitafélögin hafa einungis reiknað dagvinnutíma út þegar verið er að reikna út starfshlutfall sem myndar rétt til hversu háar orlofs-og desemberuppbætur tímakaupsfólk á rétt á, en ekki allt vinnuframlag þeirra eins og vinnu sem unnin er utan dagvinnutíma. En í dómi Félagsdóms er skýrt kveðið á um að starfshlutfall eigi að reiknast í samræmi við vinnuframlag.
Þetta hefur gert það að verkum að Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar gert þá kröfu á Akraneskaupstað að sveitafélagið leiðrétti útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tímakaupsfólks 4 ár aftur í tímann.
En það er alveg ljóst að þó nokkuð margir starfsmenn sveitafélaganna vítt og breitt um landið eiga rétt á leiðréttingu og það er verulega umhugsunarvert hvernig Samband íslenskra sveitafélaga túlkar ranglega réttindi þeirra sem lökustu kjörin hafa hjá sveitafélögunum.
En eins og áður sagði hefur þessi dómur umtalsvert fordæmisgildi fyrir tímakaupsfólk og hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness starfsmenn vítt og breitt um landið sem og þá sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg að kanna réttarstöðu sína í ljósi þessa dóms.”
Lesa má dóminn í held inn á heimasíðu stéttarfélagsins