Framsýn styður baráttu gegn fátækt eldra fólks og öryrkja

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á föstudaginn voru umræður um slæma stöðu öryrkja og aldraðra til umræðu. Samþykkt var samhljóða að félagið ályktaði um stöðuna sem væri mjög alvarleg:

„Framsýn stéttarfélag styður heilshugar undirskriftarsöfnun þess efnis að enginn eigi að þurfa að lifa af lægri innkomu en kjarasamningsbundnum lágmarkslaunum og krefst breytinga þegar í stað.

Framsýn segir NEI við því að stjórnvöld ætli að hlunnfara öryrkja og eldra fólk.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar hækka lægstu eftirlaun um 3,5% um áramótin og verða eftir hækkun tæplega 80.000 krónum lægri en núgildandi lágmarslaun í landinu sem tóku gildi 1. apríl 2019. Örorkulífeyrir verður sömuleiðis töluvert lægri en lágmarkslaun eftir hækkun.

Framsýn mótmælir þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að eftirlaun dragist enn frekar aftur úr lægstu launum og krefst þess að lægstu eftirlaun og örorkulífeyrir hækki afturvirkt frá 1. apríl 2019 upp í kr. 317.000 á mánuði.

Framsýn fordæmir skilningsleysi stjórnvalda og kallar eftir þjóðarsátt um mannsæmandi kjör og framfærslu fyrir aldraðra og öryrkja. Tryggjum öllum áhyggjulaust ævikvöld, ekki bara sumum!“

 

Deila á