Samkomulag um hæfniálag

Í gær gengu stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn frá samkomulagi við PCC BakkiSilicon hf. sem byggir á ákvæði í sérkjarasamningi aðila um hæfniálag. Aðalsteinn Árni Baldursson og Rúnar Sigurpálsson undirrituðu samkomulagið fyrir hönd PCC og stéttarfélaganna. Samkvæmt samkomulaginu koma laun starfsmanna til með að taka mið af tveimur þáttum, það er starfsaldri og hæfni. Það er, nú geta starfsmenn sótt sér frekari launahækkanir með því að standast gefnar hæfnikröfur. Hæfnisþrepin verða tvö sem starfsmönnum stendur til boða standist þeir þær kröfur sem gerðar eru til hæfniþrepanna. Hæfnisþrep I gefur 2,5% launahækkun og hæfniþrep II gefur 5% launahækkun á grunnflokk viðkomandi starfsmanns. Við það er miðað að starfsmenn geti náð hæfniþrepunum innan 5 ára frá því að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu. Samkomulagið nær til starfsmanna við framleiðslu og viðhald í verksmiðju PCC á Bakka. Mikil vilji er meðal stéttarfélaganna og forsvarsmanna PCC að gera verksmiðjuna á Bakka að góðum vinnustað, liður í því er að huga vel að öryggi, velferð og kjörum starfsmanna.

 

Deila á