Samkvæmt ákvæðum sérkjarasamnings Framsýnar/Þingiðnar og PCC BakkiSilicon hf. er fullur vilji til þess meðal samningsaðila að taka upp hæfnisálag í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Síðustu vikurnar hefur verið unnið að því að fullmóta launakerfið með það að markmiði að því verði komið á fyrir áramót. Grunnlaun starfsmanna koma til með að byggjast sérstaklega á tveimur þáttum, starfsaldri og hæfni. Starfsaldurshækkanir eru hluti af núgildandi launatöflu. Til viðbótar koma starfsmenn til með að geta sótt um frekari hækkanir enda standist þeir gefnar hæfniskröfur. Hæfnismatið fer fyrst fram eftir eins árs starfsaldur, það er hæfnisþrep 1. Síðar, en þó innan 5 ára frá ráðningu, geta starfsmenn óskað eftir endurskoðun á matinu með það að markmiði að komast í hæfnisþrep 2 sem um leið gefur viðkomandi starfsmanni hærri laun. Stéttarfélögin binda miklar vonir við að hæfnisálagið komi til með að skila starfsmönnum hærri launum og um leið PCC betra starfsfólki og þar með betri afkomu fyrirtækisins.
Starfsmenn PCC hafa undanfarið setið kynningarfundi um málefni verksmiðjunnar og nýja launakerfið sem er í mótun. Þeim hefur verið skipt upp í hópa en um 150 manns vinna hjá fyrirtækinu sem er þegar orðinn einn mikilvægasti vinnustaðurinn á Húsavík en fyrirtækið hóf framleiðslu á síðasta ári.