Mál Starfsgreinasambands Íslands gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga var tekið fyrir í Félagsdómi sl. mánudag. Er það í samræmi við samþykkt formannafundur SGS 8. ágúst síðastliðinn. Það var mat fundarins að með því að vísa deilum um jöfnun á lífeyrisréttindum til Félagsdóms væri hægt að halda áfram að ræða önnur atriði.
Fyrirtaka í málinu fór fram síðastliðinn mánudag og fór lögfræðingur saminganefndar sveitarfélaganna fram á frestun. Frestur til að skila inn greinargerð um frávísun er til 3. september og málflutningur verður 4. september. Verði því hafnað að vísa málinu frá verður settur nýr frestur til að skila inn efnislegri greinargerð. Ljóst er að sveitarfélögin eru að reyna að fresta efnislegri umræðu um sjálfsagða jöfnun lífeyrisréttinda eins lengi og þau geta. Þessi harða afstaða sveitarfélaganna er mikil vonbrigði, ekki í samræmi við málflutning talsmanna samninganefndar sveitarfélaganna og er ekki jákvætt innlegg til lausnar deilunnar.
Neita enn að greiða 105.000 kr. innágreiðslu
Viðræðunefnd SGS átti fund með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær þar sem 105.000 kr. innágreiðsla til félagsmanna var meðal þess sem tekið var til umræðu. SGS lagði á það þunga áherslu að upphæðin sem ríki, Reykjavíkurborg og nokkrar stofnanir greiddu sínu fólki 1. ágúst sl. yrði greidd til félagsmanna þeirra 1. september næstkomandi og töldu einboðið að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga yrði við kröfunni um innágreiðsluna. Henni var hins vegar hafnað af hálfu nefndarinnar á fundinum og voru það mikil vonbrigði. Það sem er til viðbótar athyglisvert er að samninganefnd SNS ber því við að sveitarstjórnarmenn vilji ekki greiða starfsmönnum innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins þessa innágreiðslu til jafns við aðra, það sé ekki stemning fyrir því innan þeirra raða. Þessar fullyrðingar eru á skjön við skoðanir þeirra sveitarstjórnarmanna sem tjáð hafa sig um málið við forsvarsmenn Framsýnar. Þar hefur ekki skort á viljann en því borið við að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga leggist alfarið gegn því og hvetji sveitarfélögin til að standa saman gegn þessari sjálfsögðu kröfu aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Já, vitleysan er ekki öll eins.